Gunnar Bragi orðlaus eftir Brúneggjaþátt

29.11.2016 - 08:13
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra segist orðlaus eftir Kastljósþátt gærkvöldsins þar sem fjallað var um fordæmalaus afskipti Matvælastofnunar af eggjabúum Brúneggja. Hann segir mistök hafa orðið til þess að málið fór aldrei lengra innan atvinnuvegaráðuneytisins.

Umfjöllun Kastljóss hefur vakið hörð viðbrögð út í samfélaginu - fjórar verslanir, Hagkaup, Bónus, Krónan og Melabúðin, hafa þegar tilkynnt að þær séu hættar að selja vörur frá Brúneggjum og mikil reiði greip um sig á samfélagsmiðlum þar sem bæði eggjaframleiðandinn og Matvælastofnun fá á
baukinn.

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, horfði á þáttinn í gær. „Mín fyrstu viðbrögð - ég varð eiginlega orðlaus þegar ég horfði á þetta í gær. Þetta er algjör viðbjóður hvernig þarna hefur verið staðið að.“

Fram kom í þættinum í gærkvöld að dýralæknir alifuglasjúkdóma hjá Matvælastofnun hefði sent atvinnuvegaráðuneytið erindi fyrir þremur árum þar sem hann upplýsti að Matvælastofnun teldi fyrirtækið ekki uppfylla skilyrði vistvænnar vottunar.

Stofnunin vildi ekki að neytendur væru blekktir. Málið sofnaði hins vegar í ráðuneytið og Matvælastofnun fékk aldrei svar hvernig hún ætti að bera sig að til að tryggja rétt neytenda. „Þegar ég heyrði fyrst af þessu fyrir nokkrum dögum og Kastljós var að afla upplýsinga fyrir þáttinn var farið yfir þetta í ráðuneytinu. Mér sýnist að þarna hafi orðið mistök þegar starfsmaður sem fékk þetta á borð til sín hætti störfum. Því miður virðist málið ekki hafa skilað sér til annars starfsmanns þegar viðkomandi hættir.“ Gunnar Bragi tekur þó fram að ráðuneytið hafi strax brugðist við þessari ábendingu og sett það í ferli.  „En við förum betur yfir þetta í ráðuneytinu í dag.“

Mynd: Matvælastofnun / Matvælastofnun

En finnst Gunnari Braga að Matvælastofnun, sem vissi af þessu máli í nærri áratug, hafa mátt bregðast fyrr við og koma því til neytenda? Ráðherra segir að Matvælastofnun hafi brugðist  býsna vel við og haft fyrirtækið lengi undir smásjá.  „Það er spurning þegar menn lofa fögru aftur og aftur hvort grípa eigi fyrr inn í - að hóta því að loka fyrirtækinu. Það kann að vera. Mér sýnist að Matvælastofnun hafi haft fyrirtækið algjörlega undir smásjánni mjög lengi,“ segir Gunnar Bragi og spyr: „Er langlundargeð okkar sem förum með valdið í þessu tilviki of mikið? Það kann vel að vera?“  

Hann segir að það kunni líka að vera að ráðuneytið eða stofnunin hefði átt að láta Neytendastofu vita af þessu máli fyrr. „Þarna er líka verið að nota merki sem var lagt af þannig að það er nú eitt platið í öllu þessu saman. Þá er spurning hver á að fylgja því eftir -  það var í sjálfu sér auglýst þegar sú reglugerð var felld niður,“ segir Gunnar Bragi sem er þar að vísa til þess að reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu var felld brot þar sem ekkert reglubundið eftirlit var með þeim sem höfðu fengið vistvæna vottun.

Gunnar kveðst ekki ætla að fría einn eða neinn ábyrgð. „Þetta er bara viðbjóðslegt mál sem verður að fara yfir og læra alvarlega af. “

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi