Gullframmistaða hjá íslenskum hljómsveitum á Airwaves

Mynd: Mummi Lú / Mummi Lú

Gullframmistaða hjá íslenskum hljómsveitum á Airwaves

08.11.2019 - 16:10

Höfundar

„Þetta er tækifæri fyrir íslensku hljómsveitirnar að setja á sig sparibindin og fara í smá stellingar því þú veist aldrei hver er í salnum að hlusta. Þú færð oft gullframmistöðu hjá hljómsveitunum á Airwaves,“ segir Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarfræðingur um tónlistarhátíðina sem nú stendur sem hæst.

Þetta er í 21. sinn sem hátíðin er haldin og alls koma fram 150 hljómsveitir. Að mati Arnars Eggerts hefur hátíðin ótvírætt gildi. „Airwaves hefur alltaf verið þessi árshátíð, samkunda íslenska tónlistarbransans þar sem bæði erlendar og íslenskar hljómsveitir koma saman að spila.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Arnar Eggert Thoroddsen.

Sjálfur hyggst hann njóta fjölbreyttrar tónlistar á hátíðinni í ár. „Ég hlakka mjög mikið til að sjá Sólstafi, íslensku svartþungarokkssveitina, mér líst rosalega vel á að sjá Of Monsters and Men með heimkomuatriði mætti segja og mér líst afskaplega vel á hana Madame Gandhi, ég eiginlega kem ekki orðum að því hvað allt er yndislegt og orkuríkt kringum hana.“

Dönsuðu og klöppuðu

Madame Gandhi sú er trommari, plötusnúður og aktívisti sem vakið hefur athygli fyrir femíníska gjörninga og fyrirlestra. Fyrri tónleikar hennar á hátíðinni í ár voru haldnir á Kex hostel og voru vel sóttir. „Ég bjóst ekki við svona mikilli orku frá áhorfendum, ég bjóst ekki einu sinni við neinum gestum – ég hélt að ég ætti að spila í móttökusal á hóteli þar sem fólk sæti með fartölvur og kaffi. Ég var afar þakklát fyrir að áhorfendur stæðu upp og tækju þátt í tónleikunum; dönsuðu, voru lifandi og klöppuðu,“ segir hún. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Madame Gandhi.

Alls eru tónleikar hátíðarinnar 200 talsins og fara fram vítt og breitt um borgina, til dæmis í Fríkirkjunni, Gauknum, plötubúðinni Lucky records, Hard Rock Café og Hressingarskálanum. Meðal yngri tónlistarmanna á hátíðinni eru söngkonan Matthildur og Krassasig, sem koma fram bæði innan og utan dagskrár.

Vera í flæðinu

Krassasig spilar í fyrsta sinn í eigin krafti, en hann hefur áður tekið þátt með hljómsveit sinni Munstur. „Ég flyt mína tónlist núna fyrsta daginn, á miðvikudeginum, og svo fæ ég aðeins að njóta á honum dögunum. Ég er að fara að spila rosalega mikið af nýju efni sem enginn hefur heyrt, og það er bæði smá scary en líka spennandi,“ segir hann. Spurður um það hvernig honum finnist sjálfum best að njóta hátíðarinnar segir hann aðferðina nokkuð einfalda: „Plana hana hóflega mikið, fara létt yfir prógrammið, ákveða einhverja stikkpunkta en samt leyfa sér líka að ramba inn á eitthvað óvænt, af því að það eru oft raðir og maður kemst ekki inn og það er vont veður. Oft verður maður líka að fylgja hópi. Maður verður svolítið að vera í flæðinu og uppgötva eitthvað á leiðinni á meðan maður er á hátíðinni.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Krassasig kemur fram í fyrsta skipti á Airwaves í ár.

Framundan hjá Krassasig er plötuútgáfa og verkefni sem því fylgja. „Næsti singúll af plötunni minni kemur út 22. nóvember, en platan kemur út snemma á næsta ári, 2020. Því fylgir örugglega alls konar vesen, tónlistarvídjó, skúlptúrar og eitthvað skemmtilegt.“

Söngkonan Matthildur hefur áður spilað á hátíðinni og oft farið sem tónleikagestur. „Í fyrsta skiptið var ég aðeins of ung, ég held ég hafi verið 15 ára, þetta er held ég 9. skiptið sem ég er að fara á Airwaves og það er alltaf ótrúlega gaman.“

Myndina efst í færslunni tók Mummi Lú.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hjaltalín og Guðni Th. setja Airwaves á Grund

Tónlist

Airwaves: Halda í töfrana og rúlla á núllinu

Tónlist

Átta erlend á Airwaves sem alla ættu að kæta

Menningarefni

Trommararnir alltaf seinir á næsta gigg