Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Gufusprengingar við Kverkfjöll

17.08.2013 - 19:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Jökulhlaup varð í Volgu við jaðar Kverkjökuls fyrir helgi. Hlaupinu fylgdu hverasprengingar sem þeyttu steinum á stærð víð fótbolta nokkur hundruð metra um svæðið.

Hlaupið rénaði aftur innan við sólarhring síðar. Þó ekkert bendi til frekari jarðhræringa á svæðinu er göngufólk beðið um að fara með gát.

Landverðir gerðu almannavörnum viðvart um brennisteinsfnyk og aukið rennsli í Volgu á fimmtudagskvöld. Beljandinn í ánni var svo mikill að göngubrú yfir hana hafði tekið af. Á tveimur stöðum gengur jökullinn yfir mikið háhitasvæði, þar myndast lón sem fyllast, lyfta jöklinum og hlaupa undan honum.

„Og það benti allt til þess að það væri einhverskonar jökulhlaup í gangi og það eru þekkt hlaup úr lóni sem að heitir Gengissigið, það er í 1600 metra hæð á háhitasvæðinu í Kverkfjöllum“ segir Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur og verkefnastjóri hjá RLS.

Í gær fékkst svo staðfest þegar almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og vísindamenn frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun fóru í könnunarflug á þyrlu Landhelgisgæslunnar að ástæða vatnavaxtanna var jökulhlaup.

Skálin sem eftir er er engin smásmíði, en hún er 500 metrar í þvermál en þó er hér um að ræða lítið jökulhlaup. 

„Og á botni lónsins sjáum við klakahröngl sem að hefur safnast fyrir á yfirborði lónsins og jafnframt höfðu orðið gufusprengingar í hverum sem að voru undir lóninu.  Þessar sprengingar verða vegna þrýstilosunar, þetta er svona einhvers konar hvellsuða sem að verður og þá þeytist upp mikill grár leir eins og við sjáum á myndunum“ segir Björn. Varhugavert sé að vera í kring um Gengissigið því að brúnir þess séu óstöðugar. 

„Þannig að ef fólk ætlar að fara í gönguferðir þarna uppá þá þarf að ræða fyrst við landverði og leita upplýsinga hjá þeim.“