Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn Kanye West

Mynd: EPA / EPA

Guðspjallið skrifar guðspjallamaðurinn Kanye West

09.11.2019 - 14:29

Höfundar

Á tímum þar sem sífellt færri Bandaríkjamenn líta á sig sem kristna fer Kanye West í hina áttina, og slær upp gospel-skotnum herbúðum á því svæði pólitíska litrófsins þar sem þeir trúuðu eru að verða enn trúaðari.

Það hljómar kannski eins og tóndæmi úr nýrri Sister Act mynd eða frá sérlega æsilegu kóramóti en „Every Hour“ er í raun fyrsta lagið á nýrri plötu hiphop-goðsagnarinnar Kanye West, Jesus is King. Það er alfarið sungið af gospelkór sem West hefur fengið til að fylgja sér um Bandaríkin á síðustu vikum og mánuðum á samkomum sem hann kallar „sunday service“ ― sunnudagsguðsþjónustu.

Á Jesus is King eru 11 lög. Þau eru 27 mínútur og fjórar sekúndur. Hvert og eitt einasta felur í sér vísun í guð kristinna manna og Kanye hefur gefið það út að ætlunarverkið sé að beina fleiri sálum um guðsveg. Sálirnar sem eru þar fyrir eru þó misspenntar.

Í „Hands On,“ segir Kanye að kristnir menn verði þeir fyrstu til að fordæma hann. Raunar fjallar „Hands On“ í heild sinni um það hversu illa honum hefur verið tekið af samfélagi trúaðra. Hann hefur enda hlotið mikla gagnrýni, sér í lagi frá öðru svörtu kristnu fólki sem lítur á skyndilega trúrækni hans sem yfirborðskennda hræsni og vöruvæðingu. Það er eftir allt saman ekki langt síðan rapparinn sló nafni sínu saman við nafn frelsarans í plötuheitinu Yeezus og á sömu plötu lýsti hann sig guð. Titill síðustu plötu hans, Ye, sagði hann mest notaða orðið í Biblíunni ― sem er ekki rétt ― en titillinn er einnig nokkuð augljóslega vísun í hans eigið nafn.

Útspili Kanye hefur þó einnig verið tekið fagnandi og þá kannski sérstaklega af gospel-listamönnum. Þeir telja það stórt og jákvætt skref að svo frægur listamaður nýti gospel-tónlist til þess að tala um guð, næstum sama hver skilaboðin svo eru.

En hver eru svo skilaboðin? 

epaselect epa07086414 US entertainer Kanye West (R) shows a cell phone depicting the image of an aircraft to US President Donald J. Trump (L) during their meeting in the Oval Office of the White House in Washington, DC, USA, 11 October 2018. Kanye West,
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kanye er dyggur stuðningsmaður Bandaríkjaforseta.

Púkaleg eða epísk einfeldni?

Stundum daðra taktarnir og tónlistin sjálf við það að virðast stuttaraleg, jafnvel hálfkláruð, en einmitt þar má þó finna gamalkunna Kanye-snilld. Textarnir eru heilt yfir heldur einfeldningslegir og fólk greinir á um hvort línur eins og „Closed on Sunday, you're my Chick-fil-A,“ séu púkalegar eða epískar í einfeldni sinni. 

Kanye velur að blóta ekki eða nota klám- og skammaryrði sem annars hafa verið algengt viðkvæði í lögum hans. Hann leitar í Biblíuna, í sálma, en jafnvel þar sem hann stendur frelsaður og ákallar og dásamar æðri máttarvöld snúast textarnir samt fyrst og fremst ekki um þau. Spurningin er ekki hvað Kanye getur gert fyrir guð heldur hvað guð getur gert fyrir Kanye.

Ósannfærandi og visnandi heimur

Í grein sinni fyrir Pitchfork bendir Rawyia Kameir á að hefðbundin gospel-tónlist kallar fram hugsjón um baráttu, umskipti og frelsun. Hvernig trúin getur flutt fjöll, gert heiminn betri. Jesus is King snúist aftur á móti að mestu leyti um hvernig trúin hefur hjálpað Kanye sjálfum.

Fyrir utan yfirborðskenndar vísanir í Biblíuna og í velmegunargospel Bandaríkjanna, segir Kameir plötuna ekki innihalda neinar hugmyndir um hvað það þýði að fylgja drottni. Annað en að halla sér aftur og bíða eftir að hann rétti manni forsíðumyndatöku fyrir Forbes og milljarða dollara strigaskómerki, það er. Þá segir Kameir:

„Það er erfitt að taka West alvarlega þegar hindranirnar sem hann ræðir eru Instagram-læk og háir skattar (...) Fremur en þann þokka, réttlæti og ást sem persónugervist í trúnni þegar hún er upp á sitt kraftmesta, tileinkar West sér forréttindatrú sem upphefur þá ríku og valdamiklu.“

Kameir segir að uppljóstranir síðustu vikna ― um að hann hafi snuprað eiginkonu sína, Kim Kardashian, fyrir kynþokkafullan klæðaburð, beðið samverkamenn sína um að halda sig frá kynlífi fyrir hjónaband meðan á upptökum stóð og haldið úti kristnu stigakerfi þar sem hann mátti meðal annars aðeins blóta tvisvar á dag ― gefi til kynna að túlkun hans á ritningunni sé frekar kreddukennd.

„Það sem gert hefur West að einstaklega sannfærandi listamanni sögulega séð hefur verið sú berskjöldun sem hann notar til að tjá sína eigin hræsni og siðferðilega ágalla. Því miður er lítið af þeim flækjum að finna á Jesus is King. (...) Plötur Kanye teygðu á sjónarhornum okkar og ímyndunarafli. Nú varpa þær ljósi á útlínur sí-visnandi heims hans.“

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Nýr Kanye, gamlar predikanir

Trúarlegur boðskapur á oft erindi út fyrir hinn trúaða heim. Í trúarlegu myndmáli felast allegoríur, og tákn sem má yfirfæra á flestar mannlegar upplifanir. Það getur upphafið andann, hvort sem er fyrir sakir fagurfræði eða trúarlegrar uppljómunar.

Áhangendur Kanye eru tryggir og hann hefur átt gott með að ná eyrum þeirra og hjörtum. Platan flaug beint í fyrsta sæti Billboard-listans svo eitthvað hlýtur hann að vera að gera rétt. 

Sama hvað hverjum finnst um kristilegan boðskap Jesus is King situr hins vegar ein spurning eftir: Er Kanye að segja eitthvað nýtt? Niðurstaðan er óhjákvæmilega nei. Þótt tónlistin sé áhugaverð eru predikanir Kanye West það aðeins fyrir sakir frægðar hans.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hnotskurn: Hver er uppi með Kanye?

Tónlist

Hugsanamótandi afl gengur guði á hönd

Popptónlist

Sunnudagsmessa Kanye West á Coachella