Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Guðni Th. boðar til fundar

01.05.2016 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði, hefur boðað til fundar í Salnum í Kópavogi á fimmtudag, uppstigningardag. Þar hyggst hann tilkynna svar sitt við spurningunni um forsetaframboð.

Miklar vangaveltur hafa verið um það hvort Guðni ætli í framboð og hafa 6.379 manns skorað á hann í hópnum „Við skorum á Guðna Th. Jóhannesson að gefa kost á sér í embætti forseta“ á Facebook.

12 hafa lýst því yfir að þeir ætli að bjóða sig fram til embættis forseta. Framboð þeirra verður þó ekki gilt fyrr en þeir hafa skilað inn tilteknum lágmarksfjölda meðmælenda.

Frestur til að skila inn meðmælendaundirskriftum rennur út 21. maí. Þá mun kjörstjórn taka einhverja daga til að fara yfir undirskriftirnar. Hún kannar hvort þær eru gildar og þá má sami maður ekki skrifa undir hjá fleiri en einum frambjóðanda. Eftir þessa yfirferð verður fyrst ljóst hverjir eru raunverulega í framboði.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV