Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Guðni sæmdi Vigdísi heiðursverðlaunum

19.04.2017 - 15:39
Mynd: Haukur Holm / RÚV
„Mér varð nú á að hugsa hérna: Enginn veit sína ævina fyrr en öll er, þetta kemur mér svo í opna skjöldu,“ sagði Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, þegar hún var sæmd heiðursverðlaunum útflutningsverðlauna forseta Íslands síðdegis. Sigsteinn Grétarsson, formaður úthlutunarnefndar, tilkynnti um veitingu heiðursverðlaunanna. Hann sagði að það hefði verið mikið lán fyrir íslenskan útflutning að njóta atbeinis hennar.

Vigdís minntist þess þegar hún og Ingjaldur Hannibalsson, þáverandi formanns Viðskiptaráðs, lögðu á ráðin um veitingu útflutningsverðlauna sem hófu göngu sína árið 1989. „Ingjaldur var góður húmoristi og við hefðum hlegið dátt bæði ef okkur hefði dottið í hug að annað hvort okkar hlyti þessi verðlaun.“

Hún sagði íslenskan útflutning hafa verið nokkuð heppinn að hafa eignast kvenmann til landkynningar „í þeirri fornöld sem nú er orðin, það er fyrir tíma internetsins“ og vísaði þar til athyglinnar sem kjör hennar sem fyrsta lýðræðislega kjörna forsetans hefði vakið erlendis.

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Vigdís Finnbogadóttir þakkar fyrir viðurkenninguna. Guðni Th. Jóhannesson, eftirmaður hennar, fylgist með.

Vigdís rifjaði upp að framleiðendur hefðu lagt mikla áherslu á að nýta forsetann til að kynna útflutning sinn. Þeirra á meðal voru ullarframleiðendur sem leituðu til hennar fyrir fyrstu opinberu heimsókn Vigdísar „Ég átti að fara í sauðskinnspels til Danmerkur, sem ég og gerði, verulega fallega sniðnum en þungur og nokkuð mikill um sig. Enda birtist auglýsandinn eins og snjóbolti við landganginn á Kastrup,“ sagði Vigdís en nefndi að þess hefði verið vandlega gætt að ekki enginn kæmist að því að inni í flíkinni væri saumað fallegt merki: Made by Sláturfélag Suðurlands.

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Verðlaunahafar og gestir á Bessastöðum í dag.

Skaginn verðlaunaður

Skaginn hf. á Akranesi fékk útflutningsverðlaun forseta Íslands fyrir árangur í sölu tækja til matvælaiðnaðar, einkum á sviði fiskvinnslu.

„Nýsköpun, vandvirkni, metnaður, framtíðarsýn, hugsa út fyrir boxið. Ef menn þykjast alltaf vita sín takmörk þá komast menn aldrei skrefinu lengra sem þarf. Það er það sem Skaginn hefur svo sannarlega sýnt í verki núna og er ekki vanþörf á,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti.

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Ingólfur Arnarson framkvæmdastjóri tekur við viðurkenningu Skagans úr höndum forseta.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV