Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Guðni ræddi kosningar í haust við Sigurð Inga

01.08.2016 - 20:11
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, segir að það hafi ekki komið sér á óvart að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafi ekki sett neinn fyrirvara á að boðað verði til Alþingiskosninga í haust, í ræðu sinni við embættistökuna í dag. Þeir hafi verið búnir að ræða þetta sín á milli.

„Þetta var fyrst og fremst mjög fallegur dagur, ræðan var mjög fín, skynsöm og yfirveguð og undirstrikar það góða í samfélaginu. En auðvitað erum við tilbúin til að bæta okkur og halda áfram á þeirri braut og mér fannst ræðan vera góð,“ segir Sigurður Ingi.

Guðni setti enga fyrirvara á að þingkosningar verði í haust - var hann búinn að ræða þetta atriði við þig? 

„Já við vorum reyndar búnir að ræða saman um framhaldið og hvað er að gerast þannig að það kom mér ekkert á óvart.“

Þannig að þetta er eitthvað sem þú samþykkir - kosningar í haust?

„Eins og við höfum nokkrum sinnum talað um síðastliðna mánuði hefur verið stefnt að kosningum eftir að við höfum lokið mjög mikilvægum málum sem forsetinn kom inn á að þyrfti að halda áfram að bæta í samfélaginu. Þannig að það er allt á réttri leið.“

Og þið rædduð þetta atriði ykkar á milli?

„Já já.“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Guðni hafi ekki verið búinn að ræða kosningar í haust við sig.

„Nei. Hann var nú ekki búinn að ræða neitt um það. Ég leit nú ekki þannig á að hann væri að boða kosningar en hann minntist á það að rætt hafi verið um kosningar í haust. En mér fannst þetta nú ekki vera stórt mál í ræðunni,“ segir Bjarni.

Ánægja með ræðuna

Forystumenn stjórnmálaflokkanna sem voru viðstaddir embættistökuna í dag voru almennt ánægðir með ræðu Guðna.

„Mér fannst bæði Lífsbókin sem hann valdi sem upphaf og ræðan hans gefa fyrirheit um von og breytta tíma,“ segir Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Pírata. „Og ég vona að okkur takist einhvern veginn að komast í gegnum næstu árin án svona mikilla átaka. Ég tek margt í ræðunni til mín og þetta boðar öðruvísi tíma en við höfum búið við um langa hríð. Þannig að ég var bara sátt.“

Undir þetta tekur Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.

„Mér fannst þetta góð ræða og mér fannst sérstaklega mikilvæg þau skilaboð sem hann var með um opið og fjölbreytt samfélag, því við lifum á tímum þar sem við sjáum mikla áherslu á aðgreiningu, hvort sem við lítum til Evrópu eða vestur um haf. Og mér fannst þessi áhersla á hið opna og fjölbreytta samfélag þar sem allir eiga að fá að njóta sín, áhersla á samhjálp og samhygð, mér fannst hún mikilvæg,“ segir Katrín.

„Mér fannst bjart yfir þessari ræðu,“ segir Bjarni Benediktsson. „Hann tekur við embættinu af mikilli auðmýkt, tilbúinn til þess að hlusta og læra og segist mögulega gera mistök. Og allt var þetta með því yfirbragði að hann tekur við embættinu af mikilli auðmýkt.“

Líst vel á Guðna

Þá segjast stjórnmálaleiðtogarnir ánægðir með nýja forsetann.

„Mér líst mjög vel á hann. Hann er auðmjúkur og þakklátur, og venjulegur maður,“ segir Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.

„Ég held að hann muni gera sitt besta til þess að vera forseti allra, og að vera sameiningartákn. Það skiptir mjög miklu máli,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.

„Hann er yfirvegaður og skynsamur og ég hlakka til samstarfs við hann og treysti því að hann verði okkur öflugur forseti til næstu ára,“ segir Sigurður Ingi.

„Bara vel, prýðilega. Ég er alveg viss um að það getur tekist góð sátt um hann sem forseta og að honum muni farnast vel í embætti,“ segir Bjarni.

„Ég get alveg sagt að Guðni sé minn forseti eins og ég held að mjög margir aðrir geti gert,“ segir Birgitta.

„Mér líst bara vel á hann,“ segir Katrín.