Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Guðni ítrekar þakkir til heilbrigðisstarfsfólks

13.03.2020 - 07:10
Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, biðlar til íslensku þjóðarinnar að halda áfram að sýna stillingu og einhug vegna útbreiðslu COVID-19 faraldursins hér á landi, ekki síst ef veiran fer að hafa enn meiri áhrif en áður á daglegt líf landsmanna.

„Þetta eru erfiðir dagar, kæru landar. Þá reynir á fólk,“ skrifar Guðni á Facebook-síðu sína í gærkvöld. Hann hrósaði framvarðarsveitinni í heilbrigðismálum; Ölmu Möller landlækni, Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni hjá Ríkislögreglustjóra, fyrir skýr svör til þjóðarinnar.

Hið almenna starfslið heilbrigðisþjónustunnar fengu svo sérstakar kveðjur frá forsetanum, eins og allir þeir sem hafa sýkst af veirunni eða sitja í sóttkví af hennar völdum.

„Mikið hefur mætt á ykkur að undanförnu. Augljóst virðist að álagið mun aukast áður en okkur tekst að vinna bug á kórónuveirunni. Ég þakka ykkur fyrir að standa vaktina með okkur og fyrir okkur. Víðtækar aðgerðir stjórnvalda miða að því að verja líf og heilsu fólks. Allra mestu varðar að hjúkra þeim sem kunna að veikjast mest og þurfa á mestri aðhlynningu að halda. Þar verðið þið áfram í fararbroddi. Ég óska ykkur velfarnaðar þessa erfiðu daga og ítreka þakkir mínar,“ sagði Guðni í kveðju sinni til heilbrigðisstarfsfólks.