Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Guðni hittir Pútín í lok mánaðarins

04.03.2017 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tekur þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni The Arctic: Territory of Dialogue ásamt Sauli Niinisto forseta Finnlands og Vladimír Pútín, forseta Rússlandds í Arkhangelsk í lok mánaðarins. Þetta staðfestir Örnólfur Thorsson, forsetaritari, í samtali við fréttastofu.

Í rússneskum miðlum er haft eftir Dmitry Peskov, talsmanni Pútíns, að Rússlandsforseti geri fastlega ráð fyrir því að eiga fund með forseta Íslands eftir pallborðsumræðurnar. 

Pútín er einn umdeildasti stjórnmálaleiðtogi heims og því verið haldið fram að hann hafi markvisst reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.  Þá hafa tengsl ráðherra og ráðamanna í Hvíta húsinu við Rússlandsforseta og samstarfsmenn hans verið í kastljósi fjölmiðla vestanhafs. 

Norðurslóðamálin voru forvera Guðna í starfi, Ólafi Ragnari Grímssyni, ofarlega í huga. Þegar Ólafur hóf fimmta kjörtímabil sitt í embætti forseta Íslands í ágúst 2014 kom fram að 43 prósent funda hans með nafngreindum einstaklingum hefðu að miklu eða öllu leyti snúist um málefni norðurslóða. 

Guðni sagði þá á vef sínum að þetta væri fróðleg tölfræði sem setti áherslu Ólafs Ragnars á norðrið í skýrt ljós. Ólafur átti sjálfur fund með Pútín í september þar sem þeir ræddu meðal annars þróun samstarfs á norðurslóðum. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV