Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Guðni fyllti á vistvæna bíla

15.05.2019 - 16:59
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Bart Biebuyck yfirmaður sameiginlegs fyrirtækis Evrópusambandsins á sviði efnarafala- og vetnismála, opna fjölorkustöðina við Miklubraut í dag.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Bart Biebuyck yfirmaður sameiginlegs fyrirtækis Evrópusambandsins á sviði efnarafala- og vetnismála, opna fjölorkustöðina við Miklubraut í dag. Mynd: Aðsend mynd
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók nýja fjölorkustöð við Miklubraut formlega í notkun í dag þegar hann fyllti á þrjá vistvæna bíla með þremur endurnýjanlegum innlendum orkugjöfum. Evrópusambandið styrkti verkefnið um tæplega 280 milljónir króna.

Þetta er fyrsta fjölorkustöðin hér landi þar sem hægt er að fylla á þrjár mismunandi tegundir vistvænna bíla, vetnis-, metan- og rafbíla, samkvæmt fréttatilkynningu Orkunnar. Fyrir eru til fjölorkustöðvar sem bjóða rafmagn og metan, auk hefðbundins eldsneytis. 

Orkugjafarnir eru endurnýjanlegir og allir framleiddir hér á landi. Metangasið kemur frá Sorpu á Álfsnesi, hraðhleðsla rafmagns- og tengitvinnbíla frá Orku náttúrunnar og vetnið er framleitt með rafgreiningu í Hellisheiðarvirkjun. 

Orkuveita Reykjavíkur hefur spáð því að árið 2030 verði rafbílar helmingur allra bíla hér á landi. Olíufyrirtækin hafa undanfarið breytt áherslum í rekstri sínum og eru að búa sig undir orkuskipti. Samkvæmt loftslagsáætlun borgarinnar verður bensínstöðvum í Reykjavík fækkað um helming til ársins 2030 og tíu árum síðar, 2040, verða þær að mestu horfnar.