Guðmundur meðvitaður um helstu styrkleika Portúgala

Mynd: RÚV / RÚV

Guðmundur meðvitaður um helstu styrkleika Portúgala

18.01.2020 - 11:50
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, segir Portúgalska liðið vera erfiðan andstæðing en Ísland mætir þeim í öðrum leik í milliriðli á EM karla í handbolta á morgun.

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Malmö klukkan 12 í dag. Með honum voru Aron Pálmarsson, Viktor Gísli Hallgrímsson og Ólafur Guðmundsson. 

Guðmundur svaraði fyrir leik sinna manna í gær en mesta athyglin var á leiknum gegn Portúgal á morgun. „Nú er framundan leikur við Portúgal, sem hefur komið mörgum á óvart með mjög góðum leik, þeir eru búnir að sýna það og sanna ef við tökum nokkur dæmi, þeir vinna Frakka, þeir vinna Svía á heimavelli með 10 mörkum, það segir mjög mikið um þeirra styrk," segir Guðmundur.

„Og það sem við höfum séð til þeirra er að þeir eru líkamlega sterkir, mjög vel skipulagðir að mínu mati, þeir eru með mjög góða sóknarlínu fyrir utan, mjög góða skotmenn frábæra línumenn og mjög góða hornamenn, það verður að segja eins og er þetta er mjög gott lið," segir Guðmundur og bætir við að Portúgalar muni líklega spila sjö á sex gegn Íslandi ,eins og hinum liðunum. „Og éf ég á að segja eins og er hvað mér finnst um þá finnst mér þeir gera það liða best í heimi í dag, að spila sjö á sex," segir Guðmundur.

Hægt er að sjá blaðamannafundinn í heild sinni hér að ofan.

Tengdar fréttir

Handbolti

„Mér fannst Aron bara ekki líkur sjálfum sér“

Handbolti

Portúgal fór illa með gestgjafana

Handbolti

Íslenska liðið réð ekki við sterka Slóvena