Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Guðmundur Ingi stefnir á framboð til Alþingis

19.10.2019 - 18:46
Mynd með færslu
 Mynd: VG - Aðsend mynd
Katrín Jakobsdóttir var endurkjörin formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs með rúmlega 97 prósentum atkvæða á landsfundi flokksins í dag. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra er nýr varaformaður VG. Hann ætlar að bjóða sig fram til Alþingis næst þegar kosið verður. 

„Ég stend náttúrulega fyrst og fremst fyrir umhverfis- og náttúruverndarmálum og að beita mér fyrir því að þau smitist inn í alla málaflokka. Hvort sem það eru samgöngumál, atvinnumál, lýðheilsumál eða hvað það er. En líka réttlætismál, náttúrulega þessi dæmigerðu vinstri mál, sanngjarnt skattkerfi, málefni hinsegin fólks og kvenfrelsi,“ segir Guðmundur Ingi. Hann stefnir á þingframboð. „Já, þetta þýðir það að ég er að hella mér á fullu út í pólitíkina og geri ráð fyrir því að gefa kost á mér til Alþingis í næstu kosningum.

Ingibjörg Þórðardóttir var kjörin ritari og Rúnar Gíslason gjaldkeri. Meðstjórnendur voru kjörin þau: Ragnar Auðunn Árnason, Sóley Björk Stefánsdóttir, Berglind Häsler, Álfheiður Ingadóttir, Þóra Magnea Magnúsdóttir, Elva Hrönn Hjartardóttir og Andrés Skúlason. 

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV