Guðmundur sagðist ekki átta sig á því hvaða tilgangi frumvarpið þjóni. „Ég hefði haldið að þetta liggi fyrir, að ríkið hafi þegar viðurkennt skaðabótaskyldu sína gagnvart þessum einstaklingum með því að bjóða fram skaðabætur. En úr því að málið var komið í þennan hnút þá var þetta farsælt skref að stíga hjá Katrínu og rétt,“ segir hann.
Guðmundur ásamt Berglindi og Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingflokksformanni Vinstri grænna, voru gestir Önnu Kristínar Jónsdóttur í Vikulokum Rásar 1.
Upphæðir bóta viðfangsefni fagfólks
Guðmundur taldi að það ætti að vera viðfangsefni fagfólks að ráða fram úr upphæð bótanna. Það ætti ekki að vera á borði þingsins.
„Ég tel að það sé ekki í verkahring þingmanna að fara að véla eitthvað um fjárhæðir hér. Þingmenn eru ekki í stakk búnir til þess. Það hlýtur að vera úrlausnarefni annarra að gera það.“