Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Guðmundar- og Geirfinnsmál pólitísk frá byrjun

Mynd: RÚV / RÚV
Guðmundar- og Geirfinnsmálin hafa verið pólitísk frá upphafi, því miður, segir Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar. Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands, telur að forsætisráðherra hafi gert rétt með því að fara með málið á pólitískan vettvang og leggja fram frumvarp um bótagreiðslur.

Guðmundur sagðist ekki átta sig á því hvaða tilgangi frumvarpið þjóni. „Ég hefði haldið að þetta liggi fyrir, að ríkið hafi þegar viðurkennt skaðabótaskyldu sína gagnvart þessum einstaklingum með því að bjóða fram skaðabætur. En úr því að málið var komið í þennan hnút þá var þetta farsælt skref að stíga hjá Katrínu og rétt,“ segir hann. 

Guðmundur ásamt Berglindi og Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingflokksformanni Vinstri grænna, voru gestir Önnu Kristínar Jónsdóttur í Vikulokum Rásar 1. 

Upphæðir bóta viðfangsefni fagfólks

Guðmundur taldi að það ætti að vera viðfangsefni fagfólks að ráða fram úr upphæð bótanna. Það ætti ekki að vera á borði þingsins.

„Ég tel að það sé ekki í verkahring þingmanna að fara að véla eitthvað um fjárhæðir hér. Þingmenn eru ekki í stakk búnir til þess. Það hlýtur að vera úrlausnarefni annarra að gera það.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin

Megi vera að þingið komi að ákvörðun um bætur

Bjarkey sagði að það væri þingsins að taka afstöðu til málsins eins og það liggur fyrir. Þá megi vera að þingið komi að ákvörðun um fjárhæð. Það verði þá leitað til þar til bæra aðila til leiðbeiningar við þá ákvörðun.

Tilgangur frumvarpsins væri fyrst og fremst að staðfesta að allir málsaðilar, líka þeir sem ekki eiga lögvarðan rétt til að fara í mál og sækja sér bætur, að þeir fái sanngirnisbætur.

„Það er mikilvægt og gott að fá staðfestingu Alþingis á því að við stöndum saman að því að þessi lágmarksréttindi fólks, það er að segja, til sanngirnisbóta, verði að veruleika,“ sagði hún. Frumvarpið verði birt eftir helgi og komist vonandi á dagskrá strax að kjördæmaviku lokinni.

Málið hvílir sem mara á þjóðinni

Málið hvíli sem mara á þjóðinni. Það hverfi ekki þótt bætur verði greiddar en að minnsta kosti felist í því ákveðin viðurkenning á ranglætinu sem málsaðilar voru beittir.

Sú viðurkenning hafi einnig komið fram sem afsökunarbeiðni frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og með því að sáttanefnd var sett á fót. Þá ætli ráðherra að halda áfram sáttaumleitunum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Mistök voru gerð með því að fara fram af fullri hörku

Ekki á að mæta málsaðilum og aðstandendum af fullri hörku eins og ríkislögmaður gerði, sagði Guðmundur. Þar hafi verið gerð mistök, hverjum sem það væri svo um að kenna. Hann taldi þó að ríkislögmaður hefði hagað vörn sinni í góðri trú.

Það er erfitt að gera sér í hugarlund það áfall sem viðkomandi fær þegar hann fær svona viðhorf við málaleitan sinni, sagði hann. Nú sé það hlutverk þeirra að búa svo um hnútana að aðilar geti komið að borðinu, nokkurn veginn beinir í baki, og ráðið fram úr þessu með hjálp fagfólks. 

Mynd með færslu
 Mynd:

Ríkið greip til varna þegar því var stefnt

Berglind sagði að ríkið væri í raun eins og umbjóðandi ríkislögmanns í málinu. Ríkinu hafi verið stefnt til bóta í kjölfar að látið var reyna á sáttaferli. Þá hafi ríkið gripið til varna.

Greinargerð ríkislögmanns sé eingöngu byggt á lögum, lagafordæmi og lagaumhverfi sem við búum við. Ríkislögmaður geti ekki gert annað en að byggja mál sitt á þeim lögum og reglum sem gilda um uppgjör bóta, fyrst málið er komið fyrir dóm. 

Hins vegar megi mögulega gagnrýna að greinargerð ríkislögmanns hafi litið fram hjá því að þegar hafi verið samþykkt að bótaskylda væri til staðar, en ríkislögmaður krafðist sýknu í málinu. 

Bætur almennt ekki mjög háar hér á landi

Berglind sagðist ekki búast við því að bætur myndu hlaupa á milljörðum. Það sé ekki venjan hér á landi að mjög háar bætur séu greiddar í skaðabótamálum og kveðið á um ákvörðun upphæðar bóta í lögum um skaðabætur.

Því yrði að setja skaðabætur í þessu máli í samhengi við það sem gildi í okkar þjóðfélagi. Svona tjón væri ekki hægt að meta til fjár og það verði aldrei bætt með peningum. Þá þurfi að reyna að finna eitthvað sem er sanngjarnt og í raun viðgengst í okkar samfélagi, sagði hún.