Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Guðlaugur Þór ræðir við Pompeo á allra næstu dögum

Mynd með færslu
 Mynd:
Reiknað er með því að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræði saman á símafundi á allra næstu dögum, jafnvel í dag eða á morgun. Þetta segir Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs. Á fundinum ætlar Guðlaugur Þór að reyna að fá undanþágu frá ferðabanni til Bandaríkjanna fyrir Íslands hönd. Borgar Þór segir að niðurstöður úr skimun Íslenskrar erfðagreiningar geti haft áhrif í þeim viðræðum.

Eftir að stjórnvöld í Bandaríkjunum settu á ferðabann frá Evrópu í síðustu viku óskaði Guðlaugur Þór eftir símafundi með Pompeo. Á föstudaginn bauð Pompeo Guðlaugi Þór til fundar við sig, og var ákveðið að fundurinn færi fram í Washington á fimmtudaginn kemur. Á laugardaginn var svo greint frá því að ekkert yrði af fundinum því Pompeo og aðrir ráðamenn í Bandaríkjunum hefðu aflýst flestum sínum fundum í ljósi þess að ferðabannið væri orðið víðtækara en gert var ráð fyrir til að byrja með.

Guðlaugur Þór óskaði þá að nýju eftir símafundi með Pompeo, en það eru sendiráðin í hvoru ríki fyrir sig sem hafa komið skilaboðum áleiðis. Borgar Þór segir að jákvæð svör hafi borist við erindinu, og að búist sé við því að fundurinn fari fram á allra næstu dögum, mögulega strax í dag eða á morgun.

Diplómatar í sóttkví

Borgar Þór segir að á fundi stjórnvalda í Bandaríkjunum með öllum Schengen ríkjunum um helgina hafi verið greint frá því að bandarísk stjórnvöld hafi ákveðið að hætta við allar undanþágur fyrir diplómata. Þeir þurfi því að fara í 14 daga sóttkví við komuna til Bandaríkjanna. Eðli málsins samkvæmt hafi það ekki komið til greina í tilfelli Guðlaugs Þórs og því hafi verið ákveðið að reyna frekar að halda símafund.

Á fundinum ætlar Guðlaugur Þór að reyna að fá undanþágu frá ferðabanninu fyrir Íslands hönd, og leggja áherslu á að tekið verði tillit til sérstöðu Íslands sem eyju. Borgar Þór segir að á fundinum verði einnig lögð áhersla á hversu langt Íslendingar eru komnir í að kortleggja útbreiðslu COVID-19 veirunnar hér á landi. Þar vegi þungt fyrstu niðurstöður úr skimun Íslenskrar erfðagreiningar, sem gefa vísbendingu um að um 1% þjóðarinnar sé smitað af veirunni.