Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Guðlaugur Þór ræddi viðskiptabann Rússa við Lavrov

26.11.2019 - 13:44
Guðlaugur Þór Þórðarson og Sergei Lavrov handsala viljayfirlýsingu um samstarf á Norðurslóðum.
 Mynd: Rússneska utanríkisráðuneyti - Utanríkisráðuneytið
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands ræddu viðskiptabann Rússa á matvæli frá Vesturlöndum, þar á meðal Íslandi, á fundi í Moskvu í morgun. Að auki var skrifað var undir viljayfirlýsingu um áframhaldandi samvinnu í norðurslóðamálum en Rússar taka við formennsku Norðurskautsráðsins af Íslendingum eftir tvö ár.

Guðlaugur Þór sagði á fundinum að Ísland og Rússland hefðu átt í miklum viðskiptum áratugum saman, jafnvel á viðsjárverðum tíma í heimssögunni. Viðskiptabann á matvæli frá Vesturlöndum sem hefði verið við lýði frá 2015 hefði komið hlutfallslega illa við íslenska útflytjendur og hann hafi ítrekað lýst áhyggjum vegna þess.

Engin vilyrði gefin

Guðlaugur segist hafa tekið þetta upp við Lavrov reglulega undanfarin ár, sem og að rússneska matvælaeftirlitið hafi ekki samþykkt vörur til Íslands. „Þegar kemur að matvælaeftirlitinu þá taldi hann að það væri fyrst og fremst framkvæmdalegt atriði en ekki neinar pólitískar ákvarðanir og við vonumst til að það sé hægt að vinna úr því. Hins vegar voru ekki gefin nein vilyrði þegar kemur að viðskiptabanninu af þeirra hálfu,“ segir Guðlaugur Þór.

Íslensk viðskiptasendinefnd er hins vegar í Rússlandi og Guðlaugur Þór segir að viðskipti hafi aukist við Rússland, einkum í hátækni í sjávarúvegi.

Gott samstarf á norðuslóðum

Þá var einnig skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf í norðurslóðamálum, en Rússar taka við forystu af Íslandi í Norðurskautsráðinu árið 2021. „Samstarf okkar við Rússa á þeim vettvangi er mjög gott og það er mjög mikilvægt að hafa samfellu milli formennskuáætlana.“

Síðar í dag flytur utanríkisráðherra opnunarávarp á viðskipta- og nýsköpunarviðburði í íslenska sendiráðsbústaðnum þar sem íslensk og rússnesk fyrirtæki kynna vörur sínar og þjónustu. Arkady Dvorkovich, fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra og stjórnarformaður Skolkovo-nýsköpunarmiðstöðvarinnar ávarpar einnig samkomuna en í lok október gerði Nýsköpunarmiðstöð Íslands samkomulag við Skolkovo-nýsköpunarmiðstöðina um frekara samstarf.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV