Guðlaugur Þór ræddi við Pompeo - samráð undirbúið

Mynd með færslu
 Mynd:
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræddi við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í síma í dag um áhrif tímabundins banns Bandaríkjastjórnar við ferðum ferðamanna af Schengen-svæðinu, sem nær einnig til íslenskra ríkisborgara. Á fundinum lýsti Guðlaugur Þór yfir vonbrigðum með aðgerðir Bandaríkjastjórnar. Guðlaugur Þór og Pompeo urðu ásáttir um að undirbúa samráð á sérfræðingastigi um þessi mál, hugsanlega í tengslum við efnahagssamráð ríkjanna í stærra samhengi.

Eftir að stjórnvöld í Bandaríkjunum settu á ferðabann frá Evrópu í síðustu viku óskaði Guðlaugur Þór eftir símafundi með Pompeo. Á föstudaginn bauð Pompeo Guðlaugi Þór til fundar við sig, og var ákveðið að fundurinn færi fram í Washington á fimmtudaginn kemur. Á laugardaginn var svo greint frá því að ekkert yrði af fundinum því Pompeo og aðrir ráðamenn í Bandaríkjunum hefðu aflýst flestum sínum fundum í ljósi þess að ferðabannið væri orðið víðtækara en gert var ráð fyrir til að byrja með.

Guðlaugur Þór óskaði þá að nýju eftir símafundi með Pompeo, og fór fundurinn fram í hádeginu í dag.

Hrósaði Íslendingum

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu lagði Guðlaugur Þór áherslu á mikilvægi þess að viðhalda farþegaflugi milli landanna tveggja, með hliðsjón af sérstakri stöðu landsins mitt á milli Evrópu og Ameríku.  Á fundinum hrósaði Pompeo aðgerðum íslenskra stjórnvalda til að hefta útbreiðslu Covid-19-veirunnar.

Ráðherrarnir ræddu mikilvægi þess að tekist yrði á við efnahagsafleiðingar faraldursins, ekki síst áhrifin á millilandaflug. Guðlaugur Þór undirstrikaði áhrifin á flug Icelandair vestur um haf og þörfina á því að huga að stöðu mála þegar heimsfaraldurinn er genginn yfir. Guðlaugur Þór og Pompeo urðu ásáttir um að undirbúa samráð á sérfræðingastigi um þessi mál, hugsanlega í tengslum við efnahagssamráð ríkjanna í stærra samhengi.

Þeir ræddu einnig viðskiptamál og báðir lögðu áherslu á mikilvægi sambands landanna tveggja og vináttu.

„Við áttum gott samtal og ég lýsti vonbrigðum mínum af aðgerðum sem Bandaríkin og nú Evrópusambandið hafa gripið til,“ segir Guðlaugur Þór. „Við þurfum að leita allra leiða til að lágmarka þann skaða sem þessar aðgerðir valda. Við verðum einnig að horfast í augu við að sú staða sem komin er upp er auðvitað án nokkurra fordæma og það er brýnt að hefta útbreiðslu veirunnar með marktækum og vísindalegum aðgerðum. Að sama skapi var mikilvægt að undirstrika gott samband landanna tveggja og um það vorum við sammála,“ segir Guðlaugur Þór.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi