Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Guðlaugur Þór hittir Pompeo í Washington

Mynd með færslu
 Mynd:
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hittir Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi í Washington á fimmtudaginn í næstu viku. Guðlaugur Þór óskaði í gær eftir símafundi með Pompeo, í kjölfar ferðabanns sem Bandaríkjaforseti setti á í fyrrakvöld, en nú hefur verið ákveðið að ráðherrarnir hittist á fundi. Á fundinum ætlar Guðlaugur Þór að reyna að fá undanþágu frá ferðabanninu fyrir Ísland.

Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs, segir í samtali við fréttastofu, að ráðuneytið hafi fengið þær upplýsingar í gegnum sendiráð Íslands í Washington, að Pompeo væri tibúinn til þess að hitta Guðlaug Þór á fundi. Guðlaugur Þór ræddi í gær við bæði sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi og staðgengil hans, og Borgar Þór segir líklegt að þau samtöl hafi haft eitthvað um það að segja að Pompeo hafi ákveðið að bjóða Guðlaugi Þór til fundar.

„Ráðherra lagði þunga áherslu á að það yrði strax sett af stað samtal um hvernig væri hægt að bregðast við þessu og horfa á sérstöðu Íslands,“ segir Borgar Þór. Tíminn fram að fundinum í næstu viku verði nýttur til þess að finna tillögur að lausn fyrir Ísland. Borgar Þór segir að Guðlaugur Þór muni á fundinum reyna að fá undanþágu frá ferðabanninu fyrir Íslands hönd, og leggja áherslu á að tekið verði tillit til sérstöðu Íslands sem eyju, líkt og gert hafi verið í tilfelli Bretlands. 

Borgar Þór segist telja líklegt að ráðherra fari til Washington á miðvikudag í næstu viku.