Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Guðlaugur Þór: Baráttan byrjar hjá okkur

Mynd: UNTV / UNTV
„Baráttan gegn hlýnun jarðar byrjar hjá okkur sjálfum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra í ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um klukkan eitt í nótt. Loftslagsmál voru ofarlega á baugi ræðu hans, en hann lagði einnig áherslu á mannréttindi og endurbætur á alþjóðakerfinu í samræmi við grunngildi Sameinuðu þjóðanna.

Guðlaugur Þór áréttaði einnig að jafnrétti kynjanna væri ein lykilforsenda velgengni Íslands. „Hér erum við hins vegar ekki í samkeppni heldur eru markmið okkar þau sömu: Að tryggja að konur fái hvarvetna notið möguleika sinna og að vinna að sjálfbærri þróun sem lætur engan undanskilinn,” sagði utanríkisráðherra. Hann vék svo að styrjöldum í Sýrlandi og Jemen, þar sem hann hvatti stórveldin á svæðinu sem kynda undir ólgunni til þess að snúa blaðinu við að styðja frekar við friðsamlegar lausnir.

Utanríkisráðherra ræddi auk þess þýðingu frjálsra viðskipta við að efla hagvöxt, stöðugleika og útrýma fátækt. Eins hvatti hann til ferkari rannsókna á smitlausum sjúkdómum á borð við taugasjúkdóma sem hrjá milljónir jarðarbúa, til dæmis mænuskaða. Guðlaugur Þór lauk svo máli sínu á að minnast fólksins sem lifði af hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar og stofnaði Sameinuðu þjóðirnar í skugga þeirra. Arfleifð þeirrar kynslóðar muni aldrei líða undir lok. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV