Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Guðlaug vill verða formaður BF

26.08.2015 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Þingmenn og sveitarstjórnarmenn Bjartrar framtíðar lýsa áhuga á því að verða formaður eða stjórnarformaður flokksins. Heiða Kristín Helgadóttir, annar stofnenda flokksins, ætlar ekki að bjóða sig fram.

Það hefur gustað um Bjarta framtíð síðustu vikur. Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall ætla að víkja úr sæti formanns og þingflokksformanns á aðalfundi í september. Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrverandi stjórnarformaður og annar stofnenda flokksins, sem hefur gagnrýnt þá báða, hefur verið orðuð við formannsframboð. En hún tilkynnti í morgun að hún ætlaði ekki að bjóða sig fram.

„Ég hef bara litið þannig á að það sem ég hef verið að segja og hugsa upphátt undanfarnar vikur hefur engan veginn snúist um mig heldur bara metnað fyrir því að Björt framtíð nái aftur að sinna því verkefni sem var lagt af stað með, sem var að ná til fólks og kjósenda og ég tel bara best á þessum tímapunkti að draga þá nafn mitt úr þeirri lúppu að vera í forystu þessa flokks,“ segir hún.

Þingmenn volgir
Heiða Kristín kveðst vilja sjá konu sem næsta formann og segist aðspurð myndu styðja Brynhildi Pétursdóttur þingmann, færi hún fram. Brynhildur segir í samtali við fréttastofu að hún sé að íhuga framboð til formanns eða stjórnarformanns flokksins, en hún hafi ekkert ákveðið. Sama segir Óttarr Proppé, þingmaður flokksins. Hann lítur svo á að sem þingmaður verði hann að vera opinn fyrir því að gefa kost á sér til trúnaðarstarfa. Hann kveðst ekki hafa gert það upp við sig hvort hann myndi þá sækjast eftir embætti formanns eða stjórnarformanns. Páll Valur Björnsson þingmaður segist ekkert hafa velt því fyrir sér að bjóða sig fram til forystu flokksins, enda hafi flokksmenn ekki hvatt hann til þess. 

Guðlaug ætlar fram
Björt framtíð er í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórnum Kópavogs og Hafnarfjarðar. Fréttastofa hefur hvorki náð í Björn Blöndal, formann borgarráðs Reykjavíkur, né Theodóru S. Þorsteinsdóttur, formann bæjarráðs Kópavogsbæjar, vegna málsins en Guðlaug Kristjánsdóttir forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar kveðst vera reiðubúin í framboð. „Ég væri til í hvort hlutverkið sem væri, ég tek undir með Heiðu Kristínu að það væri mjög jákvætt ef það væru nokkur framboð til að velja á milli. Ég myndi vilja sjá að fólk lýsti sinni afstöðu og fyrir hvað það stendur inni í það. Mér þæti spennandi að sjá það. Mér hefur líka þótt gott að sjá bent á Óttarr Proppé og Brynhildi Pétursdóttur,“ segir Guðlaug.

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV