Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

GSM sendirinn tilbúinn en ekkert samband

03.03.2020 - 17:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Þó sendir fyrir GSM samband á veginum um Vatnsskarð til Borgarfjarðar eystra hafi verið tilbúinn í nokkrar vikur er ekkert símasamband komið þar á. Ekki er hægt að kalla eftir aðstoð ef bílar festast í snjó á hluta leiðarinnar.

Það er á leiðinni af Vatnsskarði niður í Njarðvík og þaðan áfram til Borgarfjarðar sem farsímasamband vantar. Mikil ótíð hefur verið á Vatnsskarði undanfarið og nýlegt dæmi sýnir hve GSM samband þarna nauðsynlegt.

Festi bílinn og gat ekki hringt eftir aðstoð

Verktaki hjá Vegagerðinni sem var að moka til Borgarfjarðar festi bílinn á leið niður af skarðinu á föstudag. Þar var hann hjálparlaus í vitlausu veðri og gat ekki hringt eftir aðstoð. Og hjálpin barst ekki fyrr en starfsmenn í stjórnstöð Vegagerðarinnar urðu þess varir að bíllinn hreyfðist ekki og kölluðu út björgunarsveit sem kom manninum til bjargar. 

Liggur ekki fyrir hvenær þetta klárast 

Fjarskiptafyrirtækin og Neyðarlínan sameinuðust um að kosta uppsetningu farsímasendis í Njarðvík og í lok janúar lauk þar uppsetningu á tilheyrandi búnaði. Enn er þó ekki komið á farsímasamband. Rafey á Egilsstöðum er verktaki við uppsetninguna og þaðan fengust þær upplýsingar að ýmislegt hefði tafið fyrir. Verkefni út af vondu veðri undanfarið til dæmis. Reynt verði að komast í þetta sem fyrst en ekki liggi fyrir hvenær það getur orðið.