Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Grunur um ólöglegt samráð um árabil

14.10.2014 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Samkeppniseftirlitið hefur kært ellefu starfsmenn Eimskips og Samskipa til embættis Sérstaks saksóknara vegna gruns um að félögin hafi um árabil haft með sér ólöglegt samráð.

Fyrir rösku ári gerði Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Samskipum, Eimskipi og dótturfélögum þeirra og aftur í sumar. Eftirlitið hafði rannsakað félögin og fengið ábendingar um ólöglegt samráð og að félögin misnotuðu markaðsráðandi stöðu sína.

Samskip eiga samnefnt skipafélag, Landflutninga og Jóna Transport. Eimskipafélag Íslands á TVG Zimsen, Eimskip og Flytjanda. Tveir þriðju allra flutninga á landinu eru vegum þessara félaga. Skipafélögin flytja að auki þorra neysluvöru sem flutt er hingað til lands.

Ellefu starfsmenn Samskipa og Eimskips hafa verið kærðir til embættis Sérstaks saksóknara, meðal annarrra Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, og Ásbjörn Gíslason, fyrrverandi forstjóri Samskipa, sem nú stýrir Samskip Logistic í Hollandi. Pálmar Óli Magnússon, núverandi forstjóri Samskipa, hefur einnig verið kærður.

Fjallað var um málið í Kastljósi í kvöld og hvernig í kærunni er að hluta byggt á samanburði á rekstar- og söluáætlunum Samskipa og Eimskips. Í markaðsskýrslu innflutningsdeildar Samskipa árið 2011 hafi til að mynda komið fram: „Áherslan í sölu árið 2011 ræðst að miklu leyti á því hvort áframhaldandi ró helst á innflutningsmarkaði. Gert er ráð fyrir að bæði Eimskip og Samskip haldi að sér höndum og leggi áherslu á að hækka verð.“ Félögin hafi sammælst um að skipta á milli sín viðskiptum við fyrirtæki sem flytji mikið af vörum til landsins. Þannig hafi þau getað haldið verði uppi og dregið úr samkeppni.