Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grunnvatnsrannsóknir við kirkjur og skóla

03.09.2019 - 14:20
Mynd: RÚV / Ragnhildur Thorlacius
Undanfarna daga hefur jarðborinn Hrímnir, sem er í eigu Ræktunarsambands Flóa og Skeiða, verið á ferð í Reykjavík á vegum Veitna. Þar hefur hann verið notaður til að bora holur á nokkrum stöðum víðs vegar um borgina. Markmiðið er að rannsaka grunnvatnsborð innan borgarmarkanna.

Í dag er Hrímnir á bílastæði við Landakotskirkju. Bormennirnir voru í óðaönn að undirbúa borinn og hefjast handa þegar Samfélagið kom á staðinn.

Grunnvatnsstaða Reykjavíkur könnuð með borunum.
 Mynd: RÚV - Ragnhildur Thorlacius

Þar voru líka Sigrún Tómasdóttir jarðfræðingur og sérfræðingur í forðafræði hjá Veitum sem hefur umsjón með borununum og samstarfskona hennar Fjóla Jóhannesdóttir verkfræðingur og sérfræðingur í fráveitu. 

Rannsakað fyrir blágrænar ofanvatnslausnir

„Við höfum verið að bora nokkrar grunnar grunnvatnsholur innan borgarinnar undanfarna sex daga,“ segir Sigrún. „Þetta er gert í því skyni að finna út hvar sé hentugt að innleiða blágrænar ofanvatnslausnir.“  Borað er á sex stöðum og búið er að bora á þremur meðal annars við Hallgrímskirkju og Landakotskirkju. Til að undirbúa verkefnið þurfti að hafa samband við kirkjur og skóla, til að tryggja að boranirnar valdi ekki truflunum, til dæmis á meðan jarðarfarir standa yfir, enda fylgir borununum sannarlega hávaði. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ragnhildur Thorlacius

„Boranirnar eru til að hjálpa okkur til að aðlaga okkur að loftslagsbreytingum, eða auka seigluna í kerfunum okkar,“ segir Fjóla. „Við vitum ekki nógu mikið til að geta miðlað vatninu sem kemur hugsanlega. Ef grunnvatnsstaðan er há, þá kannski hentar ekki að gera blágrænar ofanvatnslausnir.“

Blágrænar ofanvatnslausnir er ein þeirra leiða sem á að fara til að miðla úrkomu innan borgarmarkanna. Fjóla bendir á að fráveitukerfin hafi hingað til meðal annars verið hugsuð til að taka á móti rigningu sem fellur jaft og þétt yfir daginn. „En reynslan í nágrannalöndum okkar sýnir að það er farið að rigna mikið á stuttum tíma,“ bendir hún á. „Nú þarf að auka seiglu kerfisins með því að miðla vatninu á annan hátt, auðvitað líka að tvöfalda kerfið með því að stækka rör, en þetta er einn af þeim hlutum sem við viljum nýta í samstarfi við Reykjavíkurborg að fá grænu svæðin í þéttingu byggðar og nýta þau til að miðla vatni á yfirborði, “ segir Fjóla.

 

ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV