Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Grunnkerfið á ekki bara að þjóna stóriðju

12.12.2019 - 12:30
Mynd: Rarik / Rarik
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, segir mikla vinnu fram undan næstu daga við að koma rafmagni aftur á. Nauðsynlegt sé að styrkja flutningskerfið sem eigi að halda í öllum veðrum. Barist hafi verið fyrir því að leggja rafmagn í jörðu, fyrir daufum eyrum sumra landeigenda.

Tryggvi var í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann segist ekki muna eftir jafn slæmu veðri. 

„Þrátt fyrir að við höfum kannski fengið meiri bilanir hér á árum áður en síðan þá hafa orðið svo miklar breytingar, það er búið að setja stóran hluta dreifikerfisins í jörðu. Við erum komin með 65% að kerfinu hjá okkur í jörð. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda hvernig það hefði verið ef við hefðum ekki verið búin að því í þessu veðri.“

Áður fyrr hafi dreifikerfi fyrst og fremst orðið fyrir tjóni en nú sé stóra tjónið á flutningskerfinu, sem sé öflugra kerfi og sterkara. Um tuttugu stæður í Dalvíkurlínu, einni sterkustu línunni í kerfinu, eru brotnar. Það sýni og sanni að kerfið sé farið að eldast og eins að veðrið sé óvenjulegt.

Flutningskerfið er á vegum Landsnets. RARIK sér um stóran hluta dreifikerfisins á landsbyggðinni. Dreifikerfi dreifiveitna í þéttbýli er yfirleitt í jarðstrengjum og verður ekki fyrir áhrifum veðurs. Rúmur þriðjungur dreifikerfis í sveitum er enn í lofti. Það tekur tíma og fjármagn að breyta kerfinu og því lýkir ekki endanlega fyrr en eftir 15 ár.

Afar erfiðar aðstæður fyrir starfsfólk

Tryggvi segir aðstæður afar erfiðar fyrir starfsmenn sem vinni að viðgerðum. „Ég heyrði í mannskap sem taldi sig geta gert eitthvað og byrjuðu og staurarnir nánast brotnuðu í höndunum á þeim og menn voru að fjúka til þegar þeir voru komnir upp í staura. Það er erfitt að vinna við þetta. “

Mannskap verður skipt út í dag og þeim sem hafa verið að störfum leyft að hvílast. „Þetta er auðvitað mjög mikið og erfitt en okkar starfsfólk horfir upp á okkar viðskiptavini í miklum vanda,“ segir Jóhannes sem segir fólk jafnframt sýna aðstæðum mikinn skilning. 

Líða fyrir sambandsleysi

Tryggvi segir aðstæður í dag aðrar en á fyrri árum. Samfélagið sé mun háðari rafmagni. Fólk treysti á fjarskiptasamband og björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar líði fyrir sambandsleysi. Nauðsynlegt sé að styrkja flutningskerfið svo unnt sé að veita landsbyggðinni þá grunnþjónustu sem hún eigi rétt á. 

„Það er ekki skilningur á því að þetta kerfi, þetta byggðalínukerfi okkar sem var byggt upp fyrir 40 árum, er ekki bara að þjóna einhverri stóriðju, þetta er grunnkerfið okkar fyrir alla landsbyggðina og það verður að vera skilningur á því að það þarf að byggja þetta kerfi. Það þarf að styrkja þetta kerfi. Það þarf að ráða við flutningsgetuna en það þarf líka bara að vera „up to date“ og þola það veður sem að við viljum að það þoli.“

Sumir landeigendur sýni aðstæðum ekki skilning

Tryggvi segir erfitt að fá leyfi fyrir framkvæmdum frá landeigendum sem búi ekki á landi sínu og sjái ekki mikilvægi þess að leggja rafmagn í jörðu, því þeir finni ekki áhrif rafmagnsleysis sjálfir. Landsnet hafi frá stofnun barist fyrir því  að fá að endurbyggja kerfið á Norðurlandi. 

„Það er auðvitað þannig að við sjáum það að þegar við erum að reyna að byggja upp kerfið og styrkja þá er ekkert mál að fá leyfi landeigenda sem búa á svæðinu en þeir sem búa einhvers staðar annars staðar, þar er vandinn, fólk vill ekki hleypa innviðum í gegnum landið sitt nema það búi á svæðinu og sjái sjálft þörfina.“

„Ég vil auðvitað bara að flutningskerfið, meginflutningskerfi landsins, fái að byggjast eðlilega upp til að takast á við þær væntingar sem við höfum til þess.“