Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grunaður um kynferðisbrot á Íslandi og í fleiri löndum

18.02.2020 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels - Pe
Bandarískur karlmaður hefur setið í gæsluvarðhaldi hjá lögreglunni á Suðurnesjum síðan í byrjun mánaðarins, grunaður um að hafa brotið kynferðislega á drengjum í nokkrum löndum, meðal annars á Íslandi. Rannsókn málsins er umfangsmikil og nær út fyrir landsteinana. Maðurinn hefur ferðast víða í töluverðan tíma og er það meðal þess sem er til rannsóknar.

Umfangsmikil rannsókn í samvinnu við útlönd

Samkvæmt heimildum fréttastofu er maðurinn meðal annars grunaður um að tæla unga drengi með skilaboðum á samfélagsmiðlum, með því að láta þá senda sér myndir. Málið teygir anga sína út fyrir landsteinana og vinnur lögreglan að rannsókn málsins í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld. Drengirnir eru sumir hverjir á fermingaraldri. Maðurinn, sem er bandarískur, er sjálfur á fertugsaldri. 

Rannsaka ferðalög, gögn og mögulega samvinnu

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur maðurinn stundað það í nokkur ár að tæla drengi, það sem stundum er kallað að grúma, hér á Íslandi og í löndunum í kring. Hann hefur ferðast í nokkurn tíma, bæði um Norður Ameríku og Evrópu, og eru þau ferðalög meðal þess sem er til rannsóknar. Þá er verið að skoða umfang gagna sem maðurinn hefur. 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er málið afar viðkvæmt, þar sem þræðirnir virðast liggja víða. Rannsókn málsins beinist líka að því hversu víðtæk brot mannsins eru og hvort hann sé í samvinnu við fleiri. Málið er á borði lögreglunnar á Suðurnesjum og hefur maðurinn setið í gæsluvarðhaldi þar síðan í byrjun febrúar.  

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV