Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Grunaður um að smita konur af HIV

23.07.2015 - 11:42
Merki lögreglunnar á Íslandi.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Erlendur karlmaður er grunaður um að hafa smitað ungar konur af HIV-veirunni. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar málið í samvinnu við sóttvarnarlækni. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir staðfestir að grunur leiki á HIV-smiti.

Maðurinn verður settur í gæsluvarðhald síðar í dag meðan á frumrannsókn málsins stendur. Þetta kemur fram á fréttatilkynningu frá lögreglu. 

Vísir greindi frá því að maðurinn væri nígerískur hælisleitandi. Fréttastofa hefur fengið þetta staðfest. Maðurinn kom hingað til landsins í ágúst í fyrra.

Í tilkynningu lögreglu kemur fram að meðal annars sé verið að rannsaka hvort fleiri konur kunni að hafa verið í samneyti við manninn og hvort þær séu smitaðar. 

Í tilkynningunni er aðeins talað um alvarlegan smitsjúkdóm. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir staðfestir við fréttastofu að grunur leiki á HIV-smiti af völdum mannsins. Hvorki Haraldur né Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vildu tjá sig frekar um málið þegar fréttastofa leitaði eftir því.

HIV veiran smitast með líkamsvessum, svo sem við kynmök eða í gegnum blóð. Eina vörnin gegn sjúkdómnum við kynmök er smokkurinn segir á vefsíðu landlæknis. HIV er lífshættulegur sjúkdómur ef hann þróast án meðferðar. Engin lækning er til við sjúkdómnum ennþá. Lokastig sjúkdómsins er alnæmi. Þá brestur ónæmiskerfi sjúklingsins. Það gerist yfirleitt mörgum árum eftir smit.

HIV-smit er greint með blóðprufu.