Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Grófar blekkingar og vísvitandi“

29.03.2017 - 12:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gylfi Magnússon, fyrrverandi viðskiptaráðherra og dósent við Háskóla Íslands, segir það standa upp úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, að stundaðar hafi verið grófar og vísvitandi blekkingar. Brotaviljinn hafi verið skýr. Jafnframt þurfi að spyrja hvort þeir sem seldu bankann fyrir hönd ríkisins, hafi staðið sig nógu vel. Ef til vill hefði Ríkisendurskoðun átt að ljóstra upp um málið. Eða HSBC, sem var ráðgjafi ríkisins, hefði átt að vekja athygli á þessu.

Þannig að einhverjir hljóta að hafa brugðist, fyrst að blekkingaleikurinn tókst með þessum ótrúlega hætti.

Segir Gylfi. Augljóst sé að ekki hafi verið staðið vel að sölunni. Skoða megi sölu Landsbankans á sama tíma, en kaup bankans voru fjármögnuð af Búnaðarbankanum, og öfugt. 

Þannig að kaupendurnir að þessum bönkum hafa lagt fram sáralítið fé. Þetta er meira eða minna lánsfé úr öðrum íslenskum bönkum. Þetta er alveg ótrúleg niðurstaða.

Segir Gylfi. Hann vill að lokið verði við allsherjarúttekt á einkavæðingu bankanna. 

Mér finnst liggja beint við að ljúka núna við allsherjar úttekt á þessari einkavæðingu. Sem að Alþingi var nú búið að samþykkja að ráðast í, fyrir einum fimm árum, en hefur ekki verið gert. Það hlýtur að þurfa að gera það núna. Og þessi skýrsla mun þá auðvitað einfalda þá vinnu, því að nú er búið að upplýsa um þennan þátt málsins. Það eru þá færri fletir sem á eftir að varpa ljósi á.

Segir Gylfi Magnússon.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV