Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Grísir geltir ólöglega á Íslandi

24.05.2014 - 18:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Yfirdýralæknir ætlar að gefa svínaræktendum tíma til áramóta, til að framfylgja banni við því að gelda grísi án deyfingar. Gelding án deyfingar veldur grísunum miklum sársauka.

Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands, segir að ekkert svínabú í landinu hafi enn aflagt geldingu án deyfingar, eftir því sem hann best viti. Verið sé að vinna að breytingunum. Það sé eindreginn vilji svínabænda að farið sé að lögum hvað varðar velferð dýra og hollustu afurðanna.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir segir að geldingar eins og þær tíðkist nú á íslenskum svínabúum séu í raun ólöglegar. Það taki þó tíma að breyta starfsháttum og því ætli hún að gefa svínaræktendum aðlögunartíma til áramóta. Svínaræktendur hafi sótt um undanþágu, sem ráðuneytið hafi nú hafnað, en á meðan hafi hún haldið að sér höndum.

„En það náttúrulega bara, það eru engir valkostir í þessu. Þeir verða að hætta að gelda sjálfir án deyfingar,“ segir Sigurborg.

Aðspurð hvort ekki sé eðlilegt, nú þegar orðið sé ljóst að þetta sé ólöglegt, að stöðva þetta nú þegar segir Sigurborg að verið sé að byrja á þeim fasa.

[email protected]