Grindvíkingar rólegir en gera ráðstafanir

Mynd: RÚV/Þór / RÚV/Þór
Vísindamenn fylgjast áfram mjög vel með landrisi á Reykjanesskaga. Grindavíkingar láta óvissuna ekki raska daglegu lífi en gera þó ráðstafanir.

Óvissustigi var lýst yfir á sunnudaginn eftir að land tók að rísa á Reykjanesskaga en það gefur vísbendingu um mögulega kvikusöfnun. Vísindamenn fylgjast náið með þróun mála og var GPS mælum komið upp á toppi Þorbjarnar á þeim stað sem kemst næst rismiðjunni. Tækin senda gögn á Veðurstofuna þar sem unnið er úr þeim en þau eru afar nákvæm og geta greint ris upp á örfáa millimetra.

Björgunarsveitin Þorbjörn er til taks og hafa félagar í sveitinni verið að fara yfir áætlanir með viðbragðsaðilum og síðustu dagar hafa verið notaðir til að fara yfir búnaðinn.  Formaður sveitarinnar segir hlutverk hennar fyrst og fremst að vera til taks fyrir íbúa.

Almennt má segja að Grindvíkingar taki óvissunni með stóískri ró en allur varinn er góður og eru sumir farnir að búa sig undir rýmingu. Ein þeirra er Halla Guðbjörg Þórðardóttir sem er búin að pakka ofan í töskur líkt og um þriggja daga sumarbústaðaferð væri að ræða. Rætt er við Höllu í myndskeiðinu sem fylgir þessari frétt.

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi