Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Grindhvalir strönduðu við Ólafsvík

13.08.2019 - 01:38
Mynd með færslu
Um 50 grindhvalir strönduðu við Útskálakirkju í Garði um verslunarmannahelgina. Um 30 þeirra komust aftur á haf út en 20 dýr drápust í fjörunni. Mynd: Víkurfréttir - Hilmar Bragi
Fjóra hvali rak á land í fjöru við Ólafsvík í kvöld. Greint er frá .þessu á mbl.is. Þar segir að stór grindhvalavaða, sem telji líklega um hundrað hvali, hafi verið á sveimi um 100-200 metra frá ströndinni um ellefuleytið í kvöld. Þrír hvalanna sem rak á land komust af sjálfsdáðum aftur á auðan sjó en einn virtist vera að drepast í flæðarmálinu. Hópur fólks reyndi að bjarga hvalnum en hafði ekki erindi sem erfiði.

Fréttaritari mbl.is á Vesturlandi telur að björgunarliðið hafi verið skipað erlendu ferðafólki. 

Mikið um grindhvali nærri landi

Þetta voru ekki einu grindhvalirnir sem hættu sér óvenju nærri landi í dag því seinnipartinn gerðu um fimmtán grindur sig heimakomnar á Pollinum á Akureyri, hvalaskoðunarfyrirtækjum, ferðafólki og heimamönnum til mikillar ánægju. Þær virtust una hag sínum hið besta á Pollinum og rötuðu ekki í neinar ógöngur, öfugt við tugi grindhvala sem synt hafa upp í fjöru á nokkrum stöðum í sumar og ýmist drepist þar eða komist á haf út aftur við illan leik.

Óvíst hvað veldur

Ekki er vitað hvað veldur því að grindhvalir, sem eru djúpsjávardýr að upplagi, synda í auknum mæli upp í fjöru hér við land, en ýmsar kenningar þar að lútandi hafa verið settar fram. Leiddar hafa verið að því líkur að aukin kafbátaumferð trufli hvalina og eins eða að þeir séu að eltast við makríl alveg upp í landsteinana. Með því að synda svo nærri landi stofni hvalirnir sér í hættu, því þar séu aðstæður oft þannig að þeir eigi erfiðara með að nýta sér bergmálspúlsana sem þeir nota til að ná áttum á djúpsævi, líkt og kafbátaumferðin gæti mögulega gert.

„Svo eru ýmsir aðrir umhverfisþættir sem geta haft slæm áhrif, eins og til dæmis sterkir sjávarfallastraumar," segir Edda Magnúsdóttir, hvalasérfræðingur við Háskóla Íslands í samtali við fréttastofu á dögunum. Þeir syndi að ströndinni á flóði en síðan geti fallið hratt út, sem verður til þess að hvalirnir lendi í grunnsævi sem ekki er þeirra náttúrulega umhverfi.

Þetta geti endað með strandi þeirra, eins og gerðist á Löngufjörum á sunnaverður Snæfellsnesi á dögunum, þar sem um 50 hvalir drápust og við Útskálakirkju í Garði, þar sem álíka margir hvalir strönduðu um verslunarmannahelgina en 30 komust aftur á haf út.