
Grímseyingar áhyggjufullir
Staðan viðkvæm
Skráður íbúafjöldi í Grímsey er um 60 en ætla má að um helmingurinn búi þar á veturna. Grímseyingar hafa tekið þátt í verkefninu brothættum byggðum frá sumrinu 2015 en ekki hefur tekist að snúa íbúaþróun í eyjunni við. Síðasta vetur var skólahald í eynni lagt niður en aðeins þrír nemendur stunduðu þá nám við Grímseyjarskóla.
Sigurbjörn ehf. hefur gert út þrjá báta og rekur fiskvinnslu í eynni þar sem um 9 manns starfa að jafnaði. Með sölunni hverfa aflaheimildir félagsins frá Grímsey. Gylfi Gunnarsson, eigandi Sigurbjarnar ehf., vildi ekki ræða við fréttastofu þegar eftir því var leitað en Grímseyingar sem fréttastofa ræddi við hafa áhyggjur af stöðunni.
Íbúar hafa áhyggjur
Sigurður Bjarnason, íbúi í Grímsey hefur áhyggjur af stöðu mála. „Já vissulega höfum við það, þetta er náttúrlega alltaf að minnka, kvótinn hér og það er nú svo sem ekki mikið annað að gera hér en sjómennska. Svo fækkar íbúunum hér. Það eru sjö manns farin héðan bara núna í haust. Þannig að þetta sígur allt í verri áttina, segir Sigurður.
Bæjarstjórn fylgist grannt með stöðunni
Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar segir bæjarstjórn fylgjast grannt með stöðunni. „Þetta er áhyggjuefni en hérna, í öllu felast einhver tækifæri og við gætum kannski verið að horfa upp á uppbyggingu atvinnulífs, svosem ferðamennsku. Hver veit.“