Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grikkir vilja flotgirðingu á Eyjahafi

30.01.2020 - 09:59
epa07705632 Newly appointed minister Nikos Panagiotopoulos looks on during a handover ceremony at the National Defence Ministry in Athens, Greece, 09 July 2019.  EPA-EFE/KOSTAS TSIRONIS
Nikos Panagiotopoulos, varnarmálaráðherra Grikklands. Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Stjórnvöld í Grikklandi vilja koma fyrir flotgirðingu á Eyjahafi til að hindra það að flóttamenn og hælisleitendur komist sjóleiðina til landsins frá Tyrklandi. Nikos Panagiotopoulos, varnarmálaráðherra Grikklands, sagði þetta í útvarpsviðtali í morgun.

Hundruð þúsunda flóttamanna hafa komið til Grikklands á undanförnum árum, en verulega dró úr straumnum eftir að samkomulag náðist um það milli Evrópusambandsins og Tyrklands árið 2016.

Engu að síður koma tugir þúsunda til Grikklands á ári hverju, nærri 60.000 á nýliðnu ári. Flestir þeirra dvelja í flóttamannabúðum á eyjunum Chios, Samos og Lesbos.

Viðruð hefur verið sú hugmynd að koma fyrir flotgirðingu nærri Lesbos, sem væri 2,7 kílómetra löng og næði allt að fimmtíu sentímetra upp úr sjónum. Hún yrði auk þess með ljósmerkjum svo að hún sæist í myrkri.