Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Grikkir fullgiltu Nató-aðild Norður-Makedóníu

09.02.2019 - 05:50
Mynd með færslu
George Katrougalos, utanríkisráðherra Grikklands, klappar forsætisráðherranum Alexis Tsipras lof í lófa eftir atkvæðagreiðsluna um fullgildingu Nató-aðildar Norður-Makedóna Mynd:
Gríska þingið samþykkti í gær fullgilda samning um aðild Norður-Makedóníu að Atlantshafsbandalaginu, eða Nató, með 153 atkvæðum gegn 140. Öll aðildarríki Nató samþykktu á miðvikudag að taka við umsókn Norður-Makedóníu á miðvikudag og því er nú ekkert því til fyrirstöðu að ríkið verði 30. aðildarríki hernaðarbandalagsins. Fyrst þurfa þó þjóðþing allra aðildarríkja að fylgja fordæmi Grikkja og fullgilda samninginn, en ekki er búist við öðru en að það reynist auðsótt.

Reikna má með að það ferli taki um eitt ár og Norður-Makedónía verði orðinn fullgildur meðlimur í Nató árið 2020.

Eftir að úrslit atkvæðagreiðslunnar í gríska þinginu lágu fyrir bauð forsætisráðherrann Alexis Tsipras Norður-Makedóna, „vinaþjóð Grikkja,“ velkomna í samtökin og sagði mikilvægt að hafa það að bandamanni í því mikilvæga verkefni að tryggja stöðugleika og frið í þessum heimshluta.

Starfsbróðir hans norðan landamæranna, Zoran Zaev, fagnaði áfanganum strax á miðvikudag og sagði mikilvægum áfanga náð til að tryggja öryggi landsins og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Nató tók í sama streng við sama tilefni. Rússar hafa hins vegar ásakað Vesturveldin og Nató um að ýta undir óstöðugleika á Balkanskaganum með því að þrýsta á Makedóna og Svartfellinga um að ganga í hernaðarbandalagið. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV