Gríðarlegt mál að fresta Ólympíuleikunum

epa08303049 Office workers wearing masks walk past the emblem of Tokyo 2020 Olympics in Tokyo, Japan, 18 March 2020. Japanese Prime Minister Shinzo Abe is still considering holding the Tokyo Olympics as scheduled despite the current coronavirus pandemic, after an emergency video conference with other G-7 leaders in fear over the outbreak of COVID-19 and the coronavirus.  EPA-EFE/KIMIMASA MAYAMA
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Gríðarlegt mál að fresta Ólympíuleikunum

23.03.2020 - 09:11
Thomas Bach forseti IOC, Alþjóða ólympíunefndarinnar opnaði loksins á þann möguleika í gær að Ólympíuleikunum í Tókýó sem eiga að hefjast 24. júlí gæti verið frestað. Hingað til hafa IOC og japönsk stjórnvöld ekki viljað heyra minnst á frestun eða hvað þá aflýsingu.

Það kom líka skýrt fram í yfirlýsingu IOC í gær að það kæmi ekki til greina að aflýsa leikunum. En í fyrsta sinn var hins vegar talað um frestun sem möguleika. Ólympíunefndir einhverra þjóða hafa hvatt IOC til að fresta leikunum, helst til ársins 2021. Kanada hefur til dæmis sagt ætla að sniðganga leikana verði þeir haldnir frá 24. júlí eins og alltaf hefur verið planað. Sebastian Coe, forseti IAAF, Alþjóða frjálsíþróttasambandsins sendi IOC líka tóninn um helgina.

Sebastian Coe sem var á sínum tíma frábær millivegalengdahlaupari er nú forseti IAAF. Coe sem er breskur þekkir vel til þess að halda Ólympíuleika, því hann var formaður undirbúningsnefndar Ólympíuleikanna í London 2012. Coe er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum og hefur verið óhræddur við að bjóða fólki birginn.

Coe ófeiminn við að svara IOC

Coe á ekki sæti í IOC en lét Ólympíunefndina vita skýrt af því um helgina að það gengi ekki að þráast við mikið lengur og ætla að halda Ólympíuleikana í Tókýó á tilsettum tíma. Það gengi bara ekki upp fyrir íþróttafólkið. Hann og IAAF væru að sjálfsögðu viljug að hjálpa til við að finna nýja dagsetningu.

IAAF með Coe í fararbroddi hafa farið mun harðar gegn lyfjamisnotkun rússnesks íþróttafólks en Bach og IOC. Þá kom Coe umdeildum reglubreytingum í gegn í fyrra sem meina konum með of hátt testósterónmagn að keppa í hlaupum frá 400 metrum og upp í eina mílu.

Hvenær ættu leikarnir þá að vera?

En það er ekki hlaupið að því að fresta einum Ólympíuleikum. Þess fyrir utan, hvenær eiga leikarnir þá að vera? Haustið 2020 eða árið 2021? Sama hvort yrði þá er það hausverkur ekki síst fyrir Shinizo Abe forsætisráðherra Japans og allt hans fólk. Það þarf að huga að dagatalsbreytingu hjá 33 alþjóðlegum íþróttasamböndum, hugsa um hótelbókanir fyrir þúsundir manna og kvenna, styrktaraðila og svo að sjálfsögðu, hvað á að gera við allt íþróttafólkið sem er þegar komið með keppnisrétt inn á leikana? Á það að halda keppnisréttinum án skilyrða ef leikunum yrði frestað til sumarsins 2021?

Japanir hafa eytt óheyrilegum fjárhæðum

Bandaríski íþróttafréttamaðurinn Alan Abrahamson er einn helsti Ólympíusérfræðingur Bandaríkjanna og hefur verið einn helsti skýrandi sjónvarpsstöðvarinnar NBC um Ólympíuleika í áraraðir. Áður vann hann á L.A. Times. Abrahamson bendir á í langri grein um helgina að Japanir séu búnir að eyða á bilinu 12 til 25 milljörðum bandaríkjadala í að halda þessa Ólympíuleika. Það eru engar smá fjárhæðir. Það komi því ekki til greina að aflýsa leikunum eða halda þá annars staðar.

Það er að gríðarlega miklu að huga ef fresta á leikunum. Það að IOC ætli sér að ákveða á næstu fjórum vikum hvort leikunum í Tókýó verði frestað eða með hvaða hætti þeir verði haldnir helgast því ekki síður af því hversu mörgum þáttum þarf að huga að svo allt geti gengið upp með nýjar dagsetningar. Ekki síður en að sjá hvert ástandið í heiminum vegna kórónuveirunnar verður og hvernig allar spár um hana verða. Ólympíueldurinn er allavega kominn til Japans. Spurningin er bara hvenær hann verður svo tendraður á Ólympíuleikvanginum í Tókýó?