Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Gríðarleg tækifæri á Íslandi

03.06.2013 - 20:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Bandarískur frumkvöðull sem átti stóran hlut í bloggfyrirtækinu Tumblr segir gríðarleg tækifæri felast í þróun netfyrirtækja á Íslandi. Tumblr var nýverið selt fyrir jafnvirði 135 milljarða króna.

Ráðstefnan Startup Iceland var sett í Háskólanum í Reykjavík í dag. Frumkvöðlar víða að úr heiminum halda fyrirlestra á ráðstefnunni, deila reynslu sinni og mynda tengsl við aðra fumkvöðla.

Á meðal fyrirlesara í dag var Brad Burnham, stofnandi fjárfestingarsjóðsins Union Square Ventures. Árið 2007 keypti sjóðurinn stóran hlut í bloggfyrirtækinu Tumblr fyrir rúmar tíu milljónir íslenskra króna.  Þá voru þrír starfsmenn hjá fyrirtækinu. Um miðjan maí keypti netrisinn Yahoo fyrirtækið hins vegar fyrir um 135 milljarða íslenskra króna.

Burnham segir þetta ekki hafa komið á óvart enda hafi hann strax haft mikla trú á stofnanda fyrirtækisins. Hann er einn stofnenda samtaka sem nefnast Internet Policy Institue of Iceland sem vinna að því að auka frumkvöðlastarf og fjárfestingu í netfyrirtækjum á Íslandi.

"Netið er frábært tækifæri fyrir land eins og Ísland, sem er afskekkt landfræðilega en þó vel tengt heiminum. Íbúarnir eru vel menntaðir, netþjónusta er útbreidd á Íslandi og notkun á Facebook og samfélagsmiðlum er mikil. Að mínu mati skapar þetta mjög álitslega möguleika til efnahagsvaxtar á Íslandi."