Gríðarleg loftmengun í Nýju Delhi

01.11.2019 - 15:08
Mynd: EPA-EFE / EPA
Frí hefur verið gefið í skólum í Nýju Delhi, höfuðborg Indlands þar til á þriðjudag. Gríðarleg loftmengun er í borginni. Allar byggingaframkvæmdir hafa verið stöðvaðar í viku og bannað er að skjóta flugeldum á loft.

Mengun í Nýju Delhi er tuttugu sinnum meiri en hámark Alþjóðaheilbrigðisstofnunar segir til um. Fimm milljón andlitsgrímum hefur verið dreift til skólabarna. Heilbrigðisyfirvöld í borginni hafa lýst yfir neyðarástandi.

Frá og með mánudegi verða settar takmarkanir á bílaumferð. Annan daginn mega bílar með jafnan síðasta tölustaf í skráningarnúmerinu aka, hinn daginn bílar með oddatölu. Arvind Kejriwal, einn af hæst settu stjórnendum Nýju Delhi segir að borgin hafi breyst í gasklefa.

Eitraðar móttökur

Angela Merkel Þýskalandskanslari kom í dag í heimsókn til borgarinnar. Glöggt mátti sjá loftmengunina á fréttamyndum þegar tekið var á móti henni með viðhöfn. AFP fréttastofan orðaði það svo að Merkel hafi fengið eitraðar móttökur þegar hún kom til Indlands.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi