Misskipting auðs er á fáum stöðum í veröldinni jafn mikil og í Rússlandi. Sovétríkin hrundu til grunna fyrir aldarfjórðungi og við tók aukið frjálsræði og kapítalismi. Tekjur jukust verulega hjá flestum en auðnum var misskipt. Einkavæðing var æði vafasöm, löggæsla lítil og veikburða réttarkerfi, landið háð náttúruauðlindum og stjórn sem gerði örfáum ólígörkum kleift að auðgast ævintýralega með því að tryggja sér og sínum lungann úr auðæfum landsins.

Gríðarleg auðæfi Pútíns og klíku hans
Í samantekt samtakanna OCCRP sem sérhæfa sig í að rannsaka skipulagða glæpastarfsemi og spillingu segir að ólígarkarnir eða þeir örfáu auðmenn sem sölsuðu undir sig lungann úr þjóðarauði Rússlands hafi í upphafi haft frjálsar hendur en það hafi breyst með tilkomu Vladimirs Pútíns. Pútín hafi gert við þá samkomulag sem allir viðsemjendur njóti góðs af. Pútín sjái um stjórn landsins en auðmennirnir koma honum til aðstoðar þegar það þurfi. Þeir fái í staðinn að halda sínum auðæfum og auka þau enn frekar.
Lengi hefur verið talað um að Pútín sjálfur sé vellauðugur, þótt erfitt sé að festa fingur á þau auðæfi. Oliver Stone spurði Pútín einmitt um þetta; hann svaraði háðskur að hann ætti ekki þau auðæfi sem menn héldu fram. Pútín hefur ætíð gætt þess vandlega að ekkert misjafnt finnist um hann í skjalfestum gögnum. Blaðamenn frá Novaya Gazeta og OCCRP sem sérhæfa sig í að rannsaka skipulagða glæpastarfsemi og spillingu rannsökuðu auðæfi hans, vina hans, ættingja og nánustu samstarfsmanna.
Þessir nánustu samstarfsmenn hans eða staðgenglar eiga gríðarlega verðmæta hluti í mörgum stærstu fyrirtækjum Rússlands og mörg þeirra tengjast með einum eða öðrum hætti gríðarlega ábatasömum orkuiðnaði landsins. Þessi innsti hringur forsetans á það eitt sameiginlegt í auðsöfnun sinni að vera í innsta hring forsetans. Rannsóknarblaðamennirnir fundu undarlegan en fámennan hóp sem þeir nefna staðgengla eða proxies. Ekkert skýri gríðarlega auðsöfnun þeirra sem sé vel falinn. Þeir séu ekki þekktir í viðskiptalífinu, ekki athafnamenn í þeim skilningi, óþekktir með öllu og viti sjálfir ekki einu sinni um þau ævintýralegu auðæfi sem skráð séu á þeirra nöfn. En allt eru þeir nánir ættingjar eða æskuvinir Pútíns. Blaðamennirnir telja augljósustu skýringuna vera að það sé í raun Pútín sem eigi þessi miklu auðæfi.
Einn þessara sérkennilegu auðmanna er Mikhail Shelomov. Hann er algjörlega óþekktur, engar myndir til af honum, hann er ekki þekktur viðskiptajöfur eða athafnaskáld. Hann vinnur hjá skipaflutningafyrirtæki og árleg laun hans eru innan við 10 þúsund bandaríkjadalir eða innan við milljón íslenskra króna. Vel innan við hundrað þúsund krónur á mánuði. Engu að síður eru skráð á hann verðmæti sem metin eru á 600 milljónir bandaríkjadala eða 64 milljarða íslenskra króna. Hann hefur á afar dularfullan hátt komist yfir stóra eignarhluti í hinum ýmsu fyrirtækjum, bönkum, orkufyrirtækjum, byggingar- og fasteignafyrirtækjum. Það sérkennilega er að hann virðist ekki vita af þessu sjálfur.
Mikhail Shelomov segist hafa heyrt af þessu en ekkert meira. En af hverju er moldríkur auðmaður eins og hann að vinna fyrir lúsarlaun í skipaflutningum. Það geta verið margar og mismunandi ástæður fyrir því, segir Shelomov. Þegar hann er spurður að því hvort hann sé raunverulegur eigandi þessara auðæfa eða hvort hann sé einungis staðgengill fyrir einhvern annan stórlax segir hann að samtalinu sé lokið. Hann svari engu frekar um þessi mál.
Auðæfi Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta eru, samkvæmt rannsóknarblaðamönnum OCCRP og lista Forbes yfir ríkustu menn heims, um 24 milljarðar bandaríkjadala eða vel yfir 2.500 milljörðum íslenskra króna. Þessi auður er skráður á innsta hring Pútíns, fjölskyldu, æskuvini og nánustu bandamenn. Oliver Stone spyr Pútín hvort það séu engir bankareikningar sem hann eigi á Kýpur. Nei, segir Pútín; það hafa aldrei verið neinir slíkir bankareikningar. Í samantekt OCCRP segir að það sé engin þörf á slíku ef menn eigi nána og trausta vini og vandamenn. Hvers vegna að taka slíka áhættu?