Grenja í gestum að borga hraðasektina sína

Mynd með færslu
 Mynd: einkasafn

Grenja í gestum að borga hraðasektina sína

22.11.2019 - 14:13
Uppistandshópurinn VHS stendur þessa dagana í ströngu en hópurinn er á hálfhringsferð um landið með sýningu sína. Ferðin hefur þó gengið brösulega því Stefán Ingvar Vigfússon, einn grínistanna og bílstjóri hópsins, fékk háa hraðasekt á leið sinni frá Akureyri til Rifs á Snæfellsnesi.

Hraðasektin nemur 60 þúsund krónum en sektina fékk Stefán þegar hann ók bifreið hópsins um Skagafjörð á leið vestur, til móts við bæinn Silfrastaði en í bæjarstæði Silfrastaða er önnur tveggja áttstrerndra kirkna landsins. 

Þeir Stefán, Vilhelm Neto og Hákon Örn Helgason voru þá að koma frá Akureyri þar sem þeir héldu vel heppnaða uppistandssýningu fyrir fullu húsi á Græna hattinum í gærkvöldi. Í kvöld stendur til að félagarnir troði upp í Frystiklefanum á Rifi en annað kvöld, laugardag, á KEX hostel í Reykjavík. Enn eru nokkrir miðar lausir á viðburðina og það þykir félögunum gott sóknarfæri til að hraðasektin fáist fullgreidd. 

„Þetta hefur gerst áður og getur gerst aftur. Ég grátbið alla íslendinga að koma á uppistandið svo við eigum einhvern möguleika á að koma út á núlli,“ segir Hákon Örn, kynnir á uppistandinu. 

Og sannarlega hefur þetta gerst áður. Stefán Ingvar fékk að eigin sögn aðra hraðasekt þegar hann var staddur í uppistandsferð á Ísafirði. „Ég var að keyra Pollgötu á Ísafirði á 50 kílómetra hraða en eins og alþjóð veit er 30 kílómetra hámarkshraði innanbæjar á Ísafirði.”

Vilhelm Neto, annar grínisti hópsins, segist hafa áhyggjur af Stefáni undir stýri það sem eftir lifir ferðar en sjálfur er hann ekki með bílpróf og getur því ekki tekið við stýrinu og vermt bílstjórasætið. „Stefán segist ætla að borga sektina af reikningi hópsins þannig okkar tekjur taka þungt högg.” segir Vilhelm Neto. „Traustið er farið og brosið líka.“

Uppistandssýningin Endurmenntun fer fram í Frystiklefanum Rifi í kvöld, föstudag, klukkan 20.00 og á morgun, laugardag, á KEX hosteli í Reykjavík. Í sýningunni fara Stefán og Vilhelm yfir æsku sína, annars vegar á Íslandi og hins vegar í Portúgal.  Þegar þetta er skrifað eru nokkrir miðar lausir á vefnum tix.is. 

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Óttast að þykja ekki fyndnir utan Reykjavíkur

Uppistand um árin sem hann var alltaf freðinn