Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Greinileg þörf fyrir nýja þolendamiðstöð

16.06.2019 - 13:25
Á þriðja tug hefur fengið þjónustu hjá Bjarmahlíð, nýrri miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri. Teymisstjóri segir að fólk komi vegna ýmiss konar ofbeldis og þörfin fyrir úrræði sem þetta hafi verið mikil. 

 

Markmiðið með Bjarmahlíð, sem svipar til Bjarkarhlíðar í Reykjavík, er að færa alla þjónustu við þolendur ofbeldis undir sama þak. Miðstöðin var opnuð fyrir almenning þann 10. maí.  

Guðrún Kristín Blöndal teymisstjóri segir að fólk sé þegar farið að nýta sér úrræðið, þótt enn viti ekki allir af því. „En ég finn bara aukningu milli vikna,“ segir Guðrún. Veistu hversu margir hafa leitað til ykkar? „Ætli það séu ekki svona um 20-25 manns, en með hverjum þjónustuþega eru náttúrulega fleiri úrræði þannig að þetta eru ansi margir klukkutímar þegar talið er fyrsta mánuðinn,“ segir Guðrún. 

Margir koma að verkefninu, lögreglan, Akureyrarbær, Aflið, heilsugæslan og fleiri. Guðrún segir að samstarfið fari vel af stað. „Það er ansi stutt frá því einstaklingur kemur í fyrsta viðtal og þangað til hann fær þjónustu, í raun og veru samdægurs. Rannsóknarlögreglan hefur líka komið og sinnt skjólstæðingum og gert það bara í raun og veru samdægurs og eftir þörfum,“ segir Guðrún. 

Einna flestir sem leita til Bjarkarhlíðar í Reykjavík gera það vegna heimilisofbeldis. Guðrún segir að enn sé ekkert eitt algengara en annað. Fólk leiti til þeirra vegna ýmiss konar ofbeldis. „Kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánu sambandi, heimilisofbeldi og fjárhagslegt ofbeldi, sem er svona kannski ákveðið hugtak sem fólk áttar sig ekki beint á,“ segir Guðrún. 

Ljóst sé að þörf hafi verið fyrir úrræði sem þetta á Norðurlandi. „Þó það sé ekki annað en að ég aðstoði einn einstakling á mánuði, þó þeir séu vissulega miklu fleiri, þá getum við ímyndað okkar að við séum að bæta líf 12 einstaklinga á ári, ef það er að meðaltali einn á mánuði. En vissulega eru tölurnar miklu hærri og þær bara tala sínu máli,“ segir Guðrún. 

 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV