Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Greindi saksóknara frá titringi vegna vináttu

17.02.2016 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sendi Ólafi Þór Haukssyni, héraðssaksóknara, tvo tölvupósta í janúar þar sem hún vakti athygli hans á því að titringur væri innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan væru vinatengsl yfirmanns rannsóknar á meintum brotum lögreglufulltrúa á fíkniefnadeild við tvo fyrrverandi yfirmenn deildarinnar.

Póstana sendi lögreglustjórinn skömmu eftir að rannsókn héraðssaksóknara hófst.  Fréttastofa greindi frá því í gær að Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá embætti héraðssaksóknara og yfirmaður rannsóknarinnar á lögreglufulltrúanum, hefði 29. janúar óskað eftir því að víkja  í þessu tiltekna máli.

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, staðfesti það í samtali við fréttastofu í gær og sagði það vera vegna þess að embættið hefði fengið ávæning af því að titringur væri á lögreglustöðinni við Hverfisgötu vegna tengsla Gríms við Karl Steinar Valsson  fyrrverandi yfirmann fíkniefnadeildar lögreglunnar og  Aldísi Hilmarsdóttur, sem Sigríður Björk  færði tímabundið úr því starfi í siðasta mánuði.  Ólafur tók þó skýrt fram að Grímur væri ekki vanhæfur samkvæmt lögum. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu sendi Sigríður Björk tvo tölvupósta á Ólaf Þór skömmu eftir að rannsóknin hófst. Heimildir fréttastofu herma að í fyrri póstinum hafi hún greint Ólafi frá því að titringur væri innan lögreglunnar vegna þessa – í seinni póstinum var bréf frá lögreglumanni sem var yfirheyrður í tengslum við rannsóknina. Þar viðraði lögreglumaðurinn áhyggjur sínar af því að Grímur væri vinur Karls Steinars og Aldísar.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst bárust embætti héraðssaksóknara fleiri svipaðar ábendingar frá lögreglustöðinni. Rannsókn héraðssaksóknara snýr hvorki að Aldísi né Karli Steinari, heldur að lögreglufulltrúa og meintum brotum hans í starfi. 

Vísar fyrirspurnum til héraðssaksóknara

Fréttastofa sendi Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, fyrirspurn í morgun um samskiptin við héraðssaksóknara og óskaði um leið eftir að fá afrit af tölvupóstunum. Svar lögreglustjórans er eftirfarandi:  

„Málið sem þú vísar til er til rannsóknar hjá héraðssaksóknara og því rétt að beina spurningum um málið til þess embættis.“

Önnur rannsókn er nú í fullum gangi en hún er á forræði embættis ríkissaksóknara.  Hún beinist að lögreglumanni sem er líka grunaður um brot í starfi og sat í nokkurra daga gæsluvarðhaldi um áramótin. Þeirri rannsókn stýrir Ásgeir Karlsson, starfsmaður ríkislögreglustjóra og fyrrverandi yfirmaður lögreglumannsins hjá fíkniefnadeild lögreglunnar. 

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari að ekki hafi komið til tals að Ásgeir viki frá þeirri rannsókn vegna tengsla hans við lögreglumanninn. Þau tengsl væru ekki talin skaða rannsóknina.