Grasagarður í meira 600 metra hæð

17.06.2015 - 14:09
Mynd: Ferðastiklur/Lára Ómarsdótti / RÚV
Það er ekki mikill gróður á Brúaröræfum. Kílómetrum saman er ekið eftir grjóti og melum og ekki stingandi strá að sjá. Því kemur það á óvart að á einum litlum bletti, á vestanverðum Brúaröræfum, skuli vera grasagarður, í Grágæsadal.

Þegar komið er niður bratta hlíðina niður í dalinn sést hvernig gróðurbletturinn er umlukinn auðninni. Því er það mjög sérstakt og einkennilegt að hér, af öllum stöðum, skuli vera að finna hundruð plöntutegunda, meira að segja er hér sjálfsprottið birki þrátt fyrir nálægðina við jökulinn og þótt við séum í 640 metra hæð.

Allt sökum þess að eitt sinn fyrir nokkrum áratugum var náttúruunnandinn Völundur Jóhannesson hér á ferð. Við fórum og hittum Völund í Grágæsadal. Það er ótrúlegt að sjá allar plönturnar hans Völundar. Og í Grágæsadal hefur hann komið sér vel fyrir, er með rennandi vatn og hlýlegar vistaverur og líklega er leitun að grasagarði í annarri eins hæð eins og hér.

Hægt er að nálgast allar Ferðastiklur á síðu þáttarins.