Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grammy-verðlaunin fikra sig í átt að fjölbreytni

Mynd: Samsett mynd / EPA

Grammy-verðlaunin fikra sig í átt að fjölbreytni

26.01.2020 - 17:19

Höfundar

Grammy-verðlaun verða veitt í 62. skiptið í Staples-höllinni í Los Angeles í nótt þegar fólk í tónlistarbrananum fer í sitt fínasta púss og verðlaunar hvert annað. Verðlaun verða veitt í 84 flokkum og að þessu sinni er íslenska tónskáldið Hildur Guðnadóttir tilnefnd í flokknum besta tónlist fyrir sjónrænan miðil.

Að þessu sinni er það rapp- og söngkonan Lizzo sem er með flestar tilnefningar, átta stykki, en 18 ára goth-poppundrabarnið Billie Eilish og samkynhneigði kántrýrapparinn Lil Nas X eru með sex hvort. En skiptir þessi stimplun stærstu verðlauna tónlistarbransans einhverju máli í popplandslagi nútímans? Eða hefur karllægni, hvítþvottur og íhaldssemi gert út af við menningarlegt mikilvægi Grammy-verðlaunanna þannig að þau veiti algrímum og spilunarlistum Spotify, mögulega valdamestu stofnunum tónlistariðnaðarins, lítið mótvægi?

Eins og áður sagði verða verðlaunin veitt í hvorki meira né minna en 84 flokkum, og mætti færa rök fyrir því að þessi gríðarlega tvístrun dragi eilítið úr slagkrafti vörumerkisins. Það eru til að mynda veitt verðlaun fyrir „bestu nýaldarplötuna“, bestu djassplötu án söngs, besta flutning á kristilegu samtímalagi, bestu plötuna með staðbundinni mexíkóskri tónlist og besta textann innan í plötuumslagi. Það er einhvern veginn ekki nándar jafn mikið stöðutákn að hafa hafa fengið Grammy og Óskar til að mynda, þegar Grammy-ið gæti hafa verið fyrir besta flutning tvíeykis eða kammersveitar á kristilegu samtímakántrílagi eða besta hljóðbókaupplestur.

Þrátt fyrir að spenna sé fyrir vissum flokkum, eins og besta lagi, plötu og flutningi í poppi og rappi til að mynda, beinast augu flestra að stórum almennu flokkunum fjórum, bestu upptöku, bestu plötu, besta lagi og besta nýliðanum. Þar eru Billie Eilish og Lizzo tilnefndar í öllum fjórum flokkum og Lil Nas X í þremur. Þá eru Lana Del Rey og Ariana Grande með tvær hvor. Þegar litið er yfir flestar tilnefningar í öllum flokkum er Lizzo með átta, Lil Nas X og Billie Eilish sex, og Ariana Grande, H.E.R. og Finnegan með sex, en sá er bróðir Eilish sem hlýtur sínar tilnefningar fyrir sína aðkomu að tónlist systur sinnar sem meðhöfundur og upptökustjóri.

Grammy-verðlaunin hafa verið harðlega gagnrýnd í gegnum tíðina fyrir að hygla hvítum listamönnum umfram aðra. Frægt er orðið þegar Kanye West strunsaði upp á svið þegar Beck vann til verðlaunanna fyrir plötu ársins 2015 en ekki Beyonce, eins og Kanye hefði þótt sanngjarnt, og þá þótti mörgum mikil hneysa að Adele hafi sigrað Beyonce í sama flokki árið 2017. Á síðustu 20 árum hafa verðlaunin fyrir plötu ársins einungis þrisvar fallið í skaut listamanns sem ekki er hvítur á hörund, Bruno Mars 2018 en þar á undan til Herbie Hancock árið 2008. Þetta hefur leitt til þess að á síðustu árum hafa sumir vinsælir þeldökkir listamenn eins og Frank Ocean og Drake dregið plötur sínar út úr keppninni í mótmælaskyni.

Verðlaunin hafa einnig verið gagnrýnd fyrir karllægni. Nýsjálenska söngkonan Lorde skaut til dæmis föstum skotum á verðlaunaafhendinguna 2018 í keyptri heilsíðuauglýsingu í blaðinu New Zealand Herald. Af þeim 15 sem tilnefnd voru þá fyrir plötu ársins, upptöku ársins og lag ársins, voru aðeins tvær konur, Lorde og Julia Michaels. Við það tækifæri var svo Lorde ekki einu sinni boðið að koma fram á hátíðinni og sagt að ekki væri pláss fyrir hana í dagskránni, en á sömu hátíð léku Sting og Shaggy tvö lög saman á hátíðinni. Enda mætti svo Lorde til athafnarinnar klædd í útdrátt af ritgerðinni Heimsendirinn mun blómstra eftir femínísku listakonuna Jenny Holzer þar sem talað er um að „kollvarpa kúgaranum“.

Þessi harða gagnrýni og krafa um meiri fjölbreytni meðal tilnefndra listamanna og verðlaunahafa hefur ekki farið fram hjá The Recording Academy, einhvers konar FÍH þeirra Bandaríkjamanna, sem kýs Grammy-verðlaunahafa. Eins og kvikmyndaakademían sem velur Óskarsverðlaunahafa, hefur hún undanfarið meðvitað reynt að víkka og breikka kjósendahópinn, með því að bjóða fleira fólki og af fjölbreyttari uppruna aðild að samtökunum. Þetta kann að hafa skilað sér. Í það minnsta ef við skoðum þá sex listamenn sem eru með flestar tilnefningar, þá eru fjórar konur, þrír þeldökkir, einn opinberlega samkynhneigður og ein í annarri líkamsstærð en flestar kvenpoppstjörnur sem ná slíkum vinsældum.

Skoðum fyrst upptöku ársins. Þar geri ég reyndar strax athugasemd við þessa undarlega skiptingu millu „upptöku“ og „lags ársins“. Þar eru verðlaunin fyrir bestu „upptöku“ bæði veitt listamanninum og upptökustjórum og hljóðjöfnurum sem komu að laginu, sem sagt verðlaun veitt fyrir heildarafraksturinn eins og hann heyrist á plötunni, en verðlaunin fyrir lag ársins eru veitt lagahöfundinum og flytjanda. Greinarmunurinn sem er gerður þarna á milli finnst mér orðinn ansi merkingarlaus þegar „upptakan“ sem þú heyrir af laginu er yfirlett eina útgáfan sem þú heyrir, þú ert ekkert mikið að lesa það úr nótnabók eða hlusta á trúbadora á danska barnum flytja það. Í landslagi nútímapopptónlistar er einfaldlega ekki hægt að aðskilja hughrif hljóms og melódíu með neinu góðu móti.

Átta upptökur eru tilnefndar til verðlaunanna en líklega eiga einungis fjögur lög raunhæfa möguleika; Bad Guy með Billie Eilish, Old Town Road með Lil Nas X og Billie Ray Cyrus, Truth Hurts með Lizzo og 7 rings með Ariönu Grande. Ég myndi veðja á Lil Nas X þar sem lag hans hefur slegið ótal met, brotið niður menningarlega múra og uppgangur þess er mikið öskubuskuævintýri. Lagið hefur fyrir það fyrsta setið lengst allra laga samfellt á toppi Billboardlistans, heilar 17 vikur. Lagið vakti fyrst athygli í lok mars þegar það lenti í 19. sæti á kántrílista Billboard, en svo var ákveðið að taka það þaðan þar sem það þótti „ekki nógu mikið kántrí“ – ákvörðun sem ýmsir töldu litaða af rasisma og fordómum. En það var sem við manninn mælt að þá ruku vinsældir þess upp og lagið skaust á ógnarhraða á topp bandaríska „alvöru“ Billboard-listans yfir vinsælustu lög óháð geira.

Þá er Lil Nas X eina manneskjan sem hefur komið út úr skápnum og á sama tíma verið með lag á toppi Billboard-listans. Laginu og honum tekst að ögra á sama tíma viðteknum hefðum í kántrí- og hiphop-menningu, hann kemur þeldökkur inn í hvíta veröld kántrísins, og svo kemur hann út úr skápnum í rappheimum þar sem hómófóbía hefur lengi verið landlæg. 

Baráttan um plötu ársins er helst á milli Lönu Del Ray, Billie Eilish og Vampire Weekend. Ég held með töffaralegu goth-poppi ungstirnisins Eilish en gæti helst trúað því að retrósíðaðar rökkur- og glamúrballöður Lönu Del Ray fari með sigur af hólmi, enda væri Norman Fucking Rockwell! líka vel að því komin. Baráttan um lag ársins verður á milli naumhyggjulega spæjarafönksins í Bad Guy með Billie Eilish og dramaballöðunnar Truth Hurts með Lizzo og vart má á milli sjá hvor er líklegri til sigurs. Veðbankar segja svo Hildi Guðnadóttur sigurstranglegasta í flokknum tónlist fyrir sjónrænan miðil þrátt fyrir að vera í samkeppni við stórveldin Hans Zimmer og Lion King. 

En síðan mætti spyrja sig hvort hátíðin hafi ekki tapað einhverju af því vægi sem hún hafði, og líklegast hefur hún alltaf haft minnst menningarkapítal af hinum stóru fjóru, Emmy, Grammy, Óskar og Tony. Man til dæmis einhver hver var plata ársins í fyrra eða lag ársins í hittífyrra? Geisladiskasala er svo alltaf að verða minni og minni sneið af tónlistarbransanum og það er ekki hægt að hengja neina límmiða um Grammy-verðlaun eða tilnefningar við agnarsmáu kápumyndirnar á Spotify. 

En allt kemur þetta í ljós í Staples-höllinni í Los Angeles í nótt þar sem koma fram listamenn eins og Billie Eilish, Ariana Grande, Lizzo, Tyler, the Creator, Rósalia og Lil Nas X.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hildur líklegust til að vinna Grammy og Óskar

Tónlist

Skrýtin framtíð gróteska skaparans

Popptónlist

Hildur Guðnadóttir tilnefnd til Grammy fyrir Chernobyl

Tónlist

Lorde gagnrýnir Grammy-verðlaunin í auglýsingu