Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Grái kötturinn krefur borgina um 18,5 milljónir

24.01.2020 - 09:42
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Ásmundur Helgason og Elín Ragnarsdóttir, eigendur veitingastaðarins Grái kötturinn, hafa sent Reykjavíkurborg kröfubréf þar sem þau krefjast skaðabóta upp á 18,5 milljónir. Þau segja borgina hafa brugðist skyldu sinni með ófullnægjandi kynningu og skipulagi, bæði í aðdraganda framkvæmda við Hverfisgötu og á meðan á þeim stóð. Þá hafi borgin ekki gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir þær tafir sem urðu á verkinu.

Framkvæmdirnar á Hverfisgötu hafa verið mjög umdeildar, ekki síst vegna þeirra tafa sem urðu á verkinu og voru þeim gerð skil í Áramótaskaupinu. Framkvæmdirnar hófust 20. maí og átti að vera lokið í kringum menningarnótt en kláruðust ekki fyrr en í nóvember.

Engin fyrirvari á framkvæmdunum

Í kröfubréfinu, sem var sent Reykjavíkurborg í síðustu viku, segir að ekki hafi verið gerðar neinar ráðstafanir til að bæta eigendum Gráa kattarins það óþarfa tjón sem hlaust af framkvæmdunum og ekkert samband hafi verið haft vegna þess.

Á það er bent slæmt aðgengi á verktíma hafi valdið samdrætti í rekstri staðarins upp á 20 til 25 prósent en mest hafi hann orðið 38 prósent í október.  Orðspor staðarins hafi beðið hnekki vegna einkunna ferðamanna á erlendum síðum þar sem finna hafi mátt athugasemdir um slæmt aðgengi. 

Í bréfinu kemur einnig fram að eigendur staðarins hafi ekki verið upplýstir um hinar fyrirhuguðu framkvæmdir. Það hafi fyrst verið gert með bréfi borgarinnar degi eftir að þær gátu hafist.  Eigendurnir hafi því ekki fengið neinn fyrirvara til að bregðast við hinum fyrirhuguðu framkvæmdum og verið sviptir þeim möguleika að reyna takmarka tjón sitt eins og hægt var. 

Þegar framkvæmdir hafi hafist þann 20. maí hafi þegar verið búið að ráða sumarstarfsmenn sem síðan hafi reynst ofaukið vegna samdráttar í veltu.

Grái kötturinn í herkví

Í kröfubréfinu er tiltekið eitt atvik þar sem keyrt hafi um þverbak.  Þá hafi verktakinn lokað gönguleið um Traðarkotssund en með því hafi orðið ófært að Gráa kettinum.  Þetta ástand hafi varað í nærri tvo og hálfan mánuð sem best væri líkt við herkví enda staðurinn þá verið inn á afgirtu vinnusvæði.

Þá er hægagangurinn við framkvæmdirnar gagnrýndur. Langan tíma hafi tekið að fleyga klöpp með tilheyrandi ónæði „sem sérfróðir menn hefðu mátt sjá fyrir en Hverfisgata nær jú upp að Klapparstíg,“ segir í kröfubréfinu.  Þá hafi það vakið undrun hversu algengt það væri að enginn var við vinnu á framkvæmdasvæðinu.

Metnaðarleysi og virðingarleysi

Það hafi til að mynda heyrt til undantekninga að unnið væri að loknum hefðbundnum vinnudegi eða um helgi. „Þegar Elín og Ásmundur spurðust fyrir um hverju þetta sætti stóð ekki á svari um að starfsmenn þyrftu að fá sumarfrí.“  Vinna hafi að mestu leyti legið niðri verslunarmannahelgina og þær skýringar verið gefnar að erfitt hafi reynst að manna vinnudagana  fyrir og eftir helgina. 

Þetta segja eigendurnir að hafi verið birtingarmynd „þess óskiljanlega metnaðarleysis“ sem hafi einkennt alla framgöngu við að klára verkið. „Fyrir utan það óþolandi virðingarleysi sem [þeim] og öðrum var sýnt með þessu og sem áttu afkomu sína undir því að verkið kláraðist hratt og vel.“