Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Grafin í snjóflóðinu í níu klukkutíma

26.10.2015 - 10:30
Mynd: RÚV / RÚV
Fjörutíu og fimm manns voru í húsunum sem urðu fyrir snjóflóðinu sem skall á byggðina á Flateyri, 26. október árið 1995. Tuttugu manns létust. Tuttugu og einn komst úr flóðinu af eigin rammleik og fjórum var bjargað á lífi. Ein þeirra sem bjargaðist var Sóley Eiríksdóttir.

Hún var ellefu ára og lá grafin í snjóflóðinu í níu klukkustundir. Fréttastofa ræddi við hana skömmu eftir að hún bjargaðist úr flóðinu. „Þá hrökk ég upp við að það voru rosalega miklir skruðningar og læti. Jörðin hristist og það var líka mikill hávaði.“

Björgunarmaður sem gróf Sóleyju upp úr snjónum sagði erfitt að skilja hvernig hún komst lífs af. „Mér datt ekki annað í hug en að hún væri lömuð því hún sagðist ekki geta hreyft sig og ekki hjálpað okkur, þannig að hún var alveg föst nema bara höfuðið. Hún gat hreyft það,“ sagði hann.

Nákomnir ættingjar létust.
Svana systir hennar sem var 19 ára og Halldór kærasti systur hennar sem var tvítugur, létust bæði í flóðinu sem skall á heimilið. Sóley missti fleiri nákomna ættingja í flóðinu, því Sólrún frænka hennar, sem var fimmtán ára, lést einnig. Nú tveimur áratugum síðar er Sóley að skrifa bók um upplifun sína og annarra af snjóflóðinu. Hún segir að sér hafi gengið vel að vinna úr áfallinu.

„Öskra alveg af lífs og sálar kröftum.“
„Ég vakna við rosalega skruðninga. Síðan er bara eins og það komi hvellur og glerið í glugganum springur bara og það er eins og það komi alda inn um gluggann hjá mér og svo verður bara allt svart. Svo vakna ég einhverju síðar og þá ligg ég á maganum með hendurnar undir mér og er alveg föst. Ég reyni eitthvað að jugga mér til en get ekki hreyft mig. Ég byrja á að öskra alveg eins og vitleysingur og átta mig strax á því að það er fallið snjóflóð. Ég hafði oft hugsað um það því herbergið mitt snéri upp að hlíðinni. Ég ímynda mér að það hefði bara rétt svo komið inn um gluggann og væri bara inni í mínu herbergi. Ég öskra alveg af lífs og sálar kröftum og hélt að systir mín og kærasti sem voru í húsinu....Ég hélt að þau myndu koma og væru jafnvel fram á gangi að reyna að grafa mig út. Svo líður tíminn og ég er þarna ennþá föst og ég átta mig á því að ég get ekki öskrað því það kláraði alla orku hjá mér þannig að ég reyndi að vera róleg og reyndi að spara kraftana,“ segir Sóley.

„Tíminn leið bara og ég heyrði umgang í kringum mig“
„Þegar ég var búinn að liggja þarna var ég svolítið að detta inn og út. Ég vaknaði í eitt skiptið og þá var ég hætt að geta hreyft mig og fann það að önnur höndin var fyrir ofan og hún var orðin hálffrosin. Ég gat ekki hreyft hana vegna kulda. Þannig að ég reyndi að taka höndina sem var undir maganum og reyndi að krafsa eitthvað með henni en fann að ég gat ekki hreyft mig. Síðan var hárið farið að frjósa fast. Þannig að ég áttaði mig á því að ég væri alveg pikkföst. Ég ákvað að vera ekkert að kalla meira því ég hafði heyrt það áður að jafnvel þótt ég myndi öskra þá myndi enginn heyra í mér, þótt ég myndi jafnvel heyra í einhverjum fyrir ofan mig. Tíminn leið bara og ég heyrði alveg umgang í kringum mig. Þá spenntist maður upp og var að bíða eftir að einhver kæmi, en síðan var bara var farið fram hjá og hljóðin dóu út.“

- Trúðir þú því allan tímann að þér yrði bjargað?
„Já ég var alltaf sannfærð um það, því mér leið ekkert illa þannig lagað. Ég hafði nægt andrými og þó ég væri alveg föst, þá fann ég að ég var ekkert slösuð eða neitt svoleiðis. Ég áttaði mig á því að ég gæti ekki verið þarna endalaust. Ég heyrði etthvað í kringum mig og vissi að það væri einhver farinn að leita. Ég var alveg 100 prósent á því að ég myndi komast upp. Það var einhvern tímann sem ég var farinn að heyra meiri hljóð og þá opnaðist lítið gat. Þá sá ég andlit. Það hrundi yfir mig snjórinn. Þetta var rosalega góð tilfinning og það sem eftir lifði dagsins var ég bara víst skælbrosandi. Ég var svo rosalega ánægð að ég var fundin og einhver hefði bjargað mér.“

Viðtalið við Sóleyju má sjá í spilaranum hér að ofan.

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV