Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grænn dagur í Kauphöllinni

08.05.2019 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Nokkur virðisaukning varð í Kauphöllinni í dag þegar bréf í öllum félögum í Kauphöllinni hækkuðu, nema í Arion banka. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,7 prósent og stendur nú í 2.128,16 stigum. Alls var verslað með bréf fyrir tæpa fjóra milljarða króna.

Mest varð verðhækkunin á bréfum í Icelandair, eða um sjö prósent í viðskiptum fyrir 247 milljónir króna. Icelandair tilkynnti í dag að félagið ætli að greiða upp 6,2 milljarða króna, andvirði tæplega 50,7 milljónir Bandaríkjadala, af skuldabréfi félagsins í lok þessa mánaðar.

Eftir uppgreiðsluna er um 40 prósent af upphaflegri fjárhæð bréfanna enn útistandandi. Fjárhæð skuldabréfanna er nú 15,5 milljarðar íslenskra króna.

Verð á hlutabréfum í fasteignafélaginu Reginn hækkaði um 4,7 prósent í dag í 240 milljóna viðskiptum. Eignarhaldsfélagið Festi hækkaði um 4,1 prósent í dag í við skiptum fyrir 296 milljónir króna.

Verð á hlutabréfum Arion banka var það eina sem lækkaði í Kauphöllinni í dag. Lækkunin nam 0,5 prósentum í viðskiptum fyrir 67 milljónir króna. Arion banki skilaði árshlutauppgjöri eftir lokun markaða í dag þar sem kemur fram að hagnaður bankans á fyrsta ársfjórðungi var nærri því helmingi minni en á sama tíma í fyrra. Hagnaður bankans á tímabilinu janúar-mars í ár nam einum milljarði króna.