Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Grænlandsjökull bráðnar mjög hratt

15.08.2019 - 16:15
Mynd: EPA / NASA
Grænlandsjökull bráðnar með sama hraða og gert var ráð fyrir að yrði raunin árið 2070. Þann 1. ágúst minnkaði íshellan um 12,5 milljarða tonna og hefur bráðnun ekki verið meiri frá því mælingar hófust árið 1950.

Í júlí flæddu um 197 milljarðar tonna af vatni úr jöklinum í Norður-Atlantshaf, sem nægir til að hækka yfirborð sjávar á jörðinni um 0,5 millimetra. Síðasta dag júlímánaðar bráðnaði yfirborð á um 60 prósentum jökulsins og frá 30. júlí til 3. ágúst mældist bráðnun á um 90 prósentum yfirborðsins.

Jökullinn hefur ekki bráðnað hraðar frá 2012 og telur vísindafólk að ástæðan sé loftslagsbreytingar.

Vísindafólk frá bandarísku geimferðarstofnuninni NASA rannsakar nú jökulinn og beitir til þess sérstökum könnunarhnöttum sem varpað er úr flugvél í ísinn.