Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grænland á tímamótum

Mynd með færslu
 Mynd: Chrissy - Wikimedia Commons
Athygli heimsins hefur beinst að Grænlandi að undanförnu, ekki síst eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti áhuga stjórnar sinnar á að kaupa landið af Dönum. Bæði Grænlendingar og Danir vísuðu hugmyndinni umsvifalaust á bug, margir firrtust við, það væri löngu liðin tíð að lönd og þjóðir gengju kaupum og sölum. Ekki bætti úr skák að Bandaríkjaforseti ræddi kaup Grænlands eins og fasteignaviðskipti.

Einhuga um að hafna hugmyndum um sölu

Svo virðist sem Grænlendingar séu nánast einhuga um að hafna hugmyndum Bandaríkjaforseta. En því fer fjarri að slík samstaða sé í öllum málum. Ekki aðeins eru hefðbundin deilumál á milli flokka, heldur eru miklar innanflokksdeilur í jafnaðarmannaflokknum Siumut, sem er stærsti flokkur landsins og sá sem mest áhrif hefur haft á stjórnmálaþróun landsins undanfarna áratugi.

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Kim Kielsen, formaður grænlensku landstjórnarinnar og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.

Lýstu vantrausti á Kim Kielsen

Fyrir skömmu lýstu sex af tíu þingmönnum Siumut á Grænlandi vantrausti á Kim Kielsen, formann landsstjórnarinnar, og kröfðust afsagnar hans. Þingmennirnir sex og einn ráðherra Siumut sögðu í yfirlýsingu að Kielsen hefði vanvirt þingið og kjósendur. Hann hefði tekið ýmsar ákvarðanir þvert á stefnu flokksins og neitað að hitta flokksmenn til að ræða óánægju í flokknum. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem er fyrrverandi formaður Vestnorræna ráðsins og þekkir mjög vel til stjórnmála á Grænlandi, telur ekki að Kielsen hrekist úr embætti.

Kielsen segir hafnar áskorunum um að láta af embætti

Kim Kielsen varð ekki við áskoruninni um að segja af sér. Hann segir að fólk taki hlutunum af ró en sé sammála um að vera ósammála. Deilurnar hafi verið ræddar og verið vísað til deilda flokksins og beðið sé afstöðu þeirra.

Mynd með færslu
Unnur Brá Konráðsdóttir Mynd: RÚV
Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi formaður Vestnorræna ráðsins.

Deilurnar hafa kraumað undir

Deilurnar innan jafnaðarmannaflokksins Siumut hafa kraumað undir yfirborðinu í nokkra mánuði en urðu opinberar þegar Hermann Berthelsen, formaður fjárlaganefndar grænlenska þingsins, tók undir kröfu stjórnarandstöðunnar um að frestað yrði undirskrift verksamninga um stækkun flugvallanna í Ilulissat og Nuuk. Kielsen varð ekki við því og samningarnir voru undirritaðir í síðustu viku. 

Deilt um viðbótarkvóta

Kielsen segir að þegar grálúðukvóti var aukinn um tvö þúsund tonn í lok síðasta árs hafi stórfyrirtækið Royal Greenland fengið 1500 tonn. Þetta er meðal þess sem kvartað hefur verið yfir. Andstæðingar Kielsens segja að yfirlýst stefna hafi verið að styðja sjómenn á litlum stöðum og ungt fólk sem vilji hefja útgerð.

epa06738616 Chairman of Naalakkersuisut, the Greenlandic Parliament, Kim Kielsen (front, C) of the party Siumut and President Hans Enoksen of the party Partii Naleraq (front, R) followed by the rest of the newly elected parliamentarians walks in a procession from the Church to the constituent assembly, in Nuuk, Greenland, 15 May 2018. Greenlanders elected 31 members for the autonomous parliament on 24 April.  EPA-EFE/Christian Klindt Soelbeck DENMARK OUT
 Mynd: epa
Kim Kielsen gengur frá kirkju til þingsetningar vorið 2018, ásamt Hans Enoksen, formanni Naleraqflokksins.

Vilja ekki nýjar kosningar

Í yfirlýsingu sjömenninganna, sem kröfðust afsagnar Kielsens, er flokksforystan ennfremur hvött til að leysa deilurnar svo ekki þurfi að boða til nýrra þingkosninga. Grænlendingar kusu í fyrravor og eftir kosningarnar myndaði Kielsen samsteypustjórn. Sú stjórn hafði raunar aðeins eins þingsætis meirihluta og hún varð ekki langlíf.

Stjórn féll vegna deilna um fjármögnun flugvalla

Stjórnin féll vegna deilna um samning við dönsku stjórnina um að danska ríkið kæmi að fjármögnun á stækkun flugvallanna í Ilulissat og Nuuk. Mjög deildar meiningar hafa verið um samkomulagið á Grænlandi, margir telja þetta stefna sjálfstæðisbaráttu Grænlands í tvísýnu.

Mynd með færslu
Nuuk. Mynd: Oliver Schauf - Wikipedia
Nuuk, höfuðstaður Grænlands.

Kielsen var áfram formaður landsstjórnar í nýrri stjórn

Kielsen sat þó áfram sem landsstjórnarformaður, nú í skjóli Demókrataflokksins eftir að samkomulag náðist við þann flokk um að sex þingmenn hans styddu stjórnina. Nú virðist landsstjórnarformaðurinn í þröngri stöðu þegar meirihluti þingflokks Siumut hefur lýst vantrausti á hann og krafist afsagnar hans. Unnur Brá Konráðsdóttir telur samt sem áður ekki að Kielsen þurfi að hafa miklar áhyggjur af stöðu sinni.

Skorinorð viðbrögð styrktu Kielsen

Unnur Brá telur að athyglin sem beindist að Grænlandi og Kim Kielsen þegar  Donald Trump geri heyrinkunnugt að hann vildi að Bandaríkjamenn heyptu Grænland hafi styrkt Kielsen. Hann hafi skorinort talað fyrir hagsmunum Grænlendinga og útskýrt sjónarmið þeirra.

Athygli heimsins beinist að norðrinu

Líklega þurfa Grænlendingar á styrkri og stöðugri stjórn að halda á næstu árum, athygli heimsins beinist að landinu, hvernig ætla Grænlendingar að bregðast við því. 

,,Norðurslóðir hafa verið í kastljósi heimsins og nú beinist athyglin að Grænlandi. Það er vel því það opnar okkur tækifæri, möguleika til samvinnu og þróunar." Kim Kielsen.

Lofstlagsbreytingar hafa mikil áhrif á Grænlandi

Grænland er ekki einungis að verða mikilvægara í refskák alþjóðastjórnmála heldur gætir áhrifa loftslagsbreytinga óvíða jafn mikið og þar.

,,Fólk sér afleiðingar loftslagsbreytinga ekki bara á Grænlandi heldur á öllu norðurskautssvæðinu. Hlýnun er um það bil tvöfalt hraðari þar. Við skulum einnig huga að því jákvæða. Meira land verður aðgengilegt fyrir námuvinnslu, en á móti eru afleiðingar neikvæðar fyrir þá sem lifa af því að veiða fisk af ísnum, sem þynnist stöðugt. Á Suður-Grænlandi eru vandamál vegna þurrka, sumrin eru hlýrri en skortur á vatni. " Kim Kielsen.

epa05234905 An aerial view made available by The Oceans Melting Greenland (OMG) field campaign team, flying NASA's G-III aircraft over Greenland at about 40,000 feet on 26 March 2016. On a clear day, this altitude also provides a stunning perspective
 Mynd: EPA - NASA
Séð yfir víðerni Grænlandsjökuls.

Miklar breytingar á Grænlandi

Unnur Brá Konráðsdóttir segir að Grænland sé að ganga í gegnum mjög miklar breytingar:

,,Áhrifa loftslagsbreytinga gætir mjög á Grænlandi, ísinn er að hopa, það þýðir að dýr sem lifa á ísnum eru að færa sig norðar og norðar. grænlendingar finna áþreifanlega fyrir þessum breytingum og vilja að það sé gripið til aðgerða og vilja að stórar þjóðir heims sýni ábyrgð og geri meira." Unnur Brá Konráðsdóttir.

Ferðaþjónusta æ mikilvægari

Ferðaþjónsta er vaxandi atvinnugrein á Grænlandi og mikilvægi hennar eykst enn þegar stækkun þriggja flugvalla verður lokið eftir nokkur ár. Grænlendingar vilja einnig bæta nýtingu sjávarafla og mikið magn sjaldgæfra og verðmætra málma er að finna í jörð, líklega einnig gas og olíu.

Bjartsýn á framtíð Grænlands

Margt bendir því til þess að eigin efnahagur Grænlands geti staðið undir nútímalífskjörum án styrkja frá Danmörku. Unnur Brá Konráðsdóttir segist bjartsýn á framtíð Grænlands en allt sé komið undir því að fólli takist að ná tökum á loftslagsbreytingum.

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV