Götulokanir vegna komu Pence síðdegis

04.09.2019 - 07:39
Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Viðbúnaður vegna komu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til landsins í dag er gríðarlega mikilll og meiri en sést hefur áður tengt heimsoknum annarra þjóðarleiðtoga og háttsettra fulltrúa ríkja. Búast má við tímabundnum umferðartöfum.
  • Katrínartúni var lokað klukkan 9 í morgun frá Borgartúni niður að Sæbraut.
  • Hluti Borgartúns verður lokaður fyrir allri umferð milli klukkan 11 og 17.
  • Sæbraut, milli Snorrabrautar og Kringlumýrarbrautar, verður lokuð frá hádegi þar til síðdegis.
  • Innakstur á Reykjanesbraut í austurátt verður bannaður á meðan Pence fer um brautina. Ekki er nákvæm tímasetning á því hvenær hann fer um en flugvél hans á að lenda í Keflaví klukkan 12:45.

Ekki er hægt að aka frá Guðrúnartúni inn á Katrínartún. Gangandi og hjólandi vegfarendur komast um utan girðingar. Vegfarendur eru beðnir um að sýna þolinmæði og tillitssemi.

Búast má við miklum töfum á umferð seinni partinn i dag að sögn lögreglu og viðbúið að erfitt verði að finna bílastæði á þessu svæði í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu verður einnig lokað fyrir umferð í Borgartúni frá Þórunnartúni að Nóatúni. 

Kaffi í Höfða

Varaforsetahjónin fara beint í Höfða þar sem þau hitta forsetahjónin og Mike Pence tekur þátt í viðskiptaþingi. Ekki er rétt að þau hitti forsetahjónin á Bessastöðum, eins og áður hafði verið greint frá. 

Að lokinni skoðunarferð um Höfða, þar sem leiðtogafundurinn var haldinn fyrir 33 árum, heldur Pence út á varnarsvæðið í Keflavík og kynnir sér öryggismál á Norður-Atlantshafi. Korter í sjö um kvöldið er síðan gert ráð fyrir tvíhliða viðræðum milli hans og Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í húsnæði Landhelgisgæslunnar. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum verður lokað fyrir alla umferð á inn á Reykjanesbraut í austurátt við komu fylgdarinnar og svo öfugt við brottför fylgdar, eða í vesturátt. Ekki sé vitað um nákvæma tímasetningu en lokað verður um það bil 5 mínútum áður en varaforsetinn og fylgdarlið hans fer á brautina og lokunin standi yfir í 5 mínútur eftir að fylgdin verður komin á brautina. Búast megi við að lokunin standi í um 20 mínútur. Sami háttur verður hafður á við brottför varaforsetans. Að sögn lögreglu má búast við tímabundnum umferðartöfum. 

Boðað hefur verið til baráttufundar á Austurvelli klukkan 17.30 dag og þar hyggjast ýmis samtök koma saman til að mótmæla stefnu Trump-stjórnarinnar. 

Fréttin var uppfærð klukkan 9:33. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi