Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gott að þegja saman

02.03.2020 - 14:08
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn
„Við þegjum saman, það er mjög gott að þegja saman. Svo þurfum við líka fulla einbeitingu við að tálga því við erum með flugbeitta hnífa í höndunum, segir Örn Friðriksson. Hann er einn af riddurum hringborðsins í Skúrnum í Hafnarfirði en þeir sitja við hringborð og tálga fugla og allskyns fígúruru eða skera út í við. 

Landinn leit inn í Skúrinn í Hafnarfirði sem er samfélagsverkefni á vegum Rauða krossins og er hugsaður fyrir karla sem eru komnir á aldur, sem kallað er, eða dottnir út af vinnumarkaði af öðrum sökum og vantar eitthvað við að vera.

Skúrinn í Hafnarfirði er einn af fjórum svona skúrum, en hinir eru á Patreksfirði, í Breiðholti og í Mosfellsbæ og einn verður opnaður á næstu vikum í Kópavogi. Í skúrunum er búið að koma upp tækjum til að renna við og fyrir trésmíðar af ýmsu tagi. Í Hafnarfirði er líka aðstaða fyrir járnsmíði og myndartöku og framköllun upp á gamla mátann. 

Þó köllunum þyki gott að þegja þá er það ekki algild regla. „Mesta fjörið er á kaffsitofunni, þegar menn taka sér pásur, þá ræða menn allt milli himins og jarðar og leysa heimsmálin," segir Þórarinn Klemensson, gjaldkeri Skúrsins í Hafnarfirði. 
 

gislie's picture
Gísli Einarsson