Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gorillaz og skáldaður veruleiki poppheimsins

Mynd: Melancholy Hill / Melancholy Hill

Gorillaz og skáldaður veruleiki poppheimsins

18.03.2017 - 11:18

Höfundar

Von er á nýrri plötu frá teiknimyndahljómsveitinni Gorillaz á árinu sem nú hefur einnig hefur stofnað sína eigin tónlistarhátíð. Eyþór Gylfason pistlahöfundur Lestarinnar segir Gorillaz vera andstöðuband sem deili á glansmynd samfélagsmiðla, stríðrekstur í miðausturlöndum og umhverfismál – og jafnframt marglaga listaverkefni sem sé þýðingarmikil rödd inn í samtíma sinn.

Eyþór Gylfason skrifar:

Við þurfum að tala um Gorillaz, hljómsveit sem í gegnum tíðina hefur verið erfitt að taka alvarlega. Hún er hugarfóstur tónlistarmannsins Damon Albarn og myndlistarmannsins Jamie Hewlett og skipuð fjórum teiknimyndafígúrum; þeim 2-D, Russel Hobbs, unglingsstúlkunni Noodle og stofnandanum djöfladýrkandi furðufuglinum Murdoc Nicclas. Kannski var þetta afsökun fyrir Albarn að gefa lausan tauminn öllum þeim tónlistarhugmyndum sem hann komst ekki upp með að birta með fyrri hljómsveitinni sinni Blur.

Mynd með færslu
 Mynd: Jamie Hewlett
Meðlimir Gorillaz.

En af hverju ætla ég þá að tala um Gorillaz, hálfgleymda hljómsveit Bush áranna? Jú vegna þess að öllum að óvörum fóru meðlimir hljómsveitarinnar að gera vart við sig á samfélagsmiðlinum Instagram í lok september á síðasta ári sem síðan leiddi til útkomu á lagi í janúar síðastliðnum í samvinnu við breska ljóðskáldið og tónlistarmanninn Benjamin Clementine. Þannig er vert að rifja aðeins upp hvaða fyrirbæri Gorillaz í raun er.

Fyrsta lag Gorillaz bar nafn hins aldraða vestraleikara Clint Eastwood.

Gorillaz er fjöllistahópur sem er stærri en bara að vera hljómsveit þó svo á sama tíma sé hún ekkert annað en bara hljómsveit. Eins og áður sagði var hún stofnuð af þeim Damon Albarn og Jamie Hewlett sem búnir voru að fá sig fullsadda af innihaldslausri stjörnudýrkun. Það kann að þykja tilgerðarlegt eða barnalegt að ætla að skóla almúgann með því að stofna hljómsveit sem á að vera skipuð teiknimyndapersónum. Því slíkt fyrirbæri var ekkert nýtt af nálinni og tengdi fólk það meira við grín heldur en einhverja alvöru. Hljómsveitir á borð við Alvin and the Chipmunks og the Archies komu upp í huga fólks þegar minnst var á teiknimyndabönd.

Draugur valtar yfir heimsbyggðina

Gorillaz átti að brjóta upp þetta norm, tónlistin átti að vera í forgrunni en ekki andlit skapara hennar; sem þeim Albarn og Hewlett fannst gegnsýra samtíma sinn. MTV var rót alls ills, innihaldslaust hismi og út úr þessari óánægju sprakk út tilraunaverkefnið Gorillaz og var það aldeilis sprenging. Lagið „Clint Eastwood“, sem var fyrsta smáskífa sveitarinnar valtaði yfir heimsbyggðina með hjálp draugsins Del the funky homosapien, sem samkvæmt myndbandinu í það minnsta, býr í höfði trommarans Russel Hobbs. Í framhaldinu birtist frumraun og fyrsta plata sveitarinnar sem einfaldlega var kölluð Gorillaz.

Fyrsta plata Gorillaz er samnefnd sveitinni.

Ómögulegt var fyrir hinn almenna hlustanda að heyra ekki hrjúfa rödd Damon Albarn óma í gegnum plötuna. Meira að segja þeir sem aðeins þekktu Blur sem hljómsveitina sem átti „þarna Woo Hoo lagið“ kveiktu á söngvaranum. Þannig mátti að einhverju leyti segja að Gorillaz konseptið hafi dáið í fæðingu. Þetta var ekki 2-D Manga teiknimyndapersónan heldur bara annað hliðarverkefni Damon Albarn. Í það minnsta sá hluti sem kom að ósýnileika hljómsveitarmeðlima. Hins vegar er þar grunnur lagður að hljóðheimi hljómsveitarinnar og auk þess getur tíminn verkað sem hjálparhella einhvers sem langar að fela sig. En eins og með hvert annað stórhýsi er grunnurinn oft ekki mikill á að líta.

Platan er reyndar frekar góð, henni er haldið uppi af smáskífunum „Clint Eastwood“,  „19-2000“ og „Tomorrow Comes Today“. Samansuða af ska, dub, hip og trip hopi, pop og rokk tónlist, auk þess sem troðið er inn kúbanska laginu „Latin Simone (Que Pasa Contigo)“. Maður spyr sig hvort þetta lag sé ekki merki þess að Albarn hafi verið að reyna aðeins of mikið. Það er Dan the Automator eða Daniel Nakamura sem framleiðir plötuna í samvinnu við Albarn. Þeir hræra saman hægum töktum í bland við rafmögnuð hljóðfæri og plötusnúða.

Skilgreinanleikinn máður út

Fjórum árum síðar, 2005, eru Bandaríkin búin að gera innrás í Írak og þeir Albarn og Hewlett gefa út sína aðra breiðskífu, hljómplötuna Demon Days. Tónlistarmenn búa flestir ef ekki allir yfir vopnabúri þar sem þeir fela allar prufur og þráhyggjur sem falla ekki auðveldlega undir regnhlíf verkefnanna sem þeir eru að vinna að á hverjum tíma. Búr Damon Albarn hefur líklega verið að því komið að springa þegar Demon Days kemur út.

Eins og á fyrri plötunni er hér samansuða alls kyns tónlistarstefna sem á að má út skilgreinanleika hljómsveitarinnar. Greinilegt er að Albarn og Hewlett eru búnir að átta sig betur á því hvaða fyrirbæri Gorillaz er, hvaða merkingu það hefur að Gorillaz sendi frá sér nýja hljóðversplötu. Albarn er eini raunmeðlimurinn og getur þar af leiðandi teymt hljóðheiminn í þær áttir sem honum sýnist hverju sinni. Fengið að vinna með þeim listamönnum sem passa best í tónlistarlegt mót sem Albarn hefur sniðið fyrir farveg sveitarinnar. Líkt og á fyrstu plötunni blandar hann saman rokki, poppi, dub og dancehall, hip og trip hopi ásamt afrobíti.

Á fyrstu smáskífu Demon Days eiga De La Soul firnasterka innkomu.

Hins vegar fer heildarverkið, það er hið stóra konsept sveitarinnar, mun hærra en á fyrstu plötunni. Við sem hlustendur erum á einhvern hátt þátttakendur í sögu sem þeir Albarn og Hewlett kynna okkur fyrir. Samband tónlistarmyndbandanna og tónlistarinnar er sett á allt annan stall. Platan er myrk og eru þemun meðal annars fengin út frá handriti að Gorillaz kvikmynd sem aldrei varð að veruleika og andstöðu gegn vopnaburði og stríði, ekki síst stríðinu í Írak sem ríkisstjórn George W. Bush stofnaði til. Þessu til stuðnings er hægt að nefna lögin „Kids With Guns“ og „Last Living Souls“ eða myndbandið við „Dirty Harry“.

Albarn leitar á ný mið í hip hop-þætti plötunnar, sem eins og á fyrstu plötunni, eru þeir partar sem gefa skífunni blæbrigði og lit. Hann fær til sín goðsagnirnar De La Soul og MF DOOM til þess að rappa inná milli söngþýðra viðlaga, já og meira að segja stórleikarann Dennis Hopper. Samstarfið við De La Soul fæddi af sér risasmellinn „Feelgood inc.“ sem líklega setti hljómsveitina, tónlistarlega ofarlega á stall þeirra hljómsveita sem synda á móti tónlistarstraumum tíðarandans. Því lagið var nýtt og ferskt en féll samt ekki í hin dæmigerðu form.

Í myndbandi og texta Dirty Harry mátti meðal annars finna vísanir í Íraksstríðið.

Gorillaz kynnir sig sem hljómsveit sem gerir lítið úr poppmenningu og á innistæðu fyrir því. Hún sankar að sér aðdáendum og í framhaldinu verður fyrirbærið Gorillaz fullþroska. Marglaga samfélagsádeila sem tekst að ná til fjölbreyttra þátta samfélagsins með teiknimyndaháði, beinskeyttum textum og söguheimi sem kitlar sköpunarkraft aðdáenda sinna. Gorillaz eru komnir til að vera, sem þýðingarmikil rödd inn í samtíma sinn.

Satíra

Ári eftir útkomu Demon Days birtist ævisaga sveitarinnar í viðtalsbókinni The Rise of the Ogre þar sem aðdáendur gátu kynnst bakgrunni meðlima Gorillaz, hvaðan þeir koma og hvernig leiðir þeirra lágu saman. Þessi bók sem er mjög meðvituð um skáldskaparelement sitt og varpar hæðnislegu ljósi á popptónlistarumfjöllun nútímans. Ekki að línan á milli markaðssetningar og raunheimsins hafi verið ýkja skörp í gegnum tíðina, en satíra Gorillaz hefur í raun fært okkur inn í skáldaðan veruleika í poppheimi nútímans. Hvort sem það er að vita um hvern Beyoncé er að fjalla á plötunni Lemonade  eða hver verður næstur til þess að hryggbrjóta söngkonuna Taylor Swift.

Murdoc, stofnandi og talsmaður Gorillaz er tíður gestur í viðtölum og pirringur hans á öllu mögulegu verður sífellt greinilegri í samfélagsumræðunni og aðdáendum er gefið talsvert meira kjöt til þess að kjamsa á. Hann er merkilega viðkunnalegur gæji, lítur út eins og þungarokkstjarna frá áttunda eða níunda áratugnum en er í leiðinni allt það sem Albarn og Hewlett hafa andstyggð á í tónlistarheiminum. Hann meira að segja býður sjónvarpsþættinum MTV Cribs í heimsókn í hljóðver sveitarinnar, Kong Studios, sem jafnframt er heimili hljómsveitarmeðlimana. Til þess eins að kóróna sjálfsdýrkun sína.  Almenningi gafst síðan tækifæri til þess að skoða sig um í hljóðverinu á heimasíðu sveitarinnar. Þannig er markaðsetning hljómsveitarinnar tvíþætt, að þjóna öflum markaðarins en á sama tíma að benda á hversu forheimskandi öll umfjöllun poppmenningar getur verið.

Rótsterk afstaða til umhverfismála

Árið 2010 lítur meistaraverk hljómsveitarinnar dagsins ljós, breiðskífan Plastic Beach. Það er í raun fáránlegt hversu góð þessi plata er, miðað við rótsterka afstöðu til umhverfismála. Oft vill það henda að því eindregnara viðhorf sem listin boðar, þeim mun verri verður útkoman. En svo er hreint ekki í þetta skipti. Platan er marglaga listaverk sem flakkar á milli ólíkra miðla. Á undraverðan hátt smellur allt það sem Albarn og Hewlett lögðu upp með saman í glæsilega heild. Gorillaz var orðið fullþroska fyrirbæri sem sýndi sig í öllu sínu veldi við útkomu Plastic Beach. Á vefsíðu sveitarinnar var hægt að spila tölvuleikinn Escape to Plastic Beach, þar sem nördar fengu tækifæri til þess að kynnast persónum sveitarinnar aðeins betur, sem er líklega orðið eitt af höfundareinkennum þeirra, þessi gagnvirki eltingaleikur við baksögu meðlima Gorillaz.

Í fyrstu smáskífu Plastic Beach bregður fyrir sálarsöngvaranum Bobby Womack og rapparanum Mos Def.

Endurkomumyndbandið sem bar sama nafn og tölvuleikurinn Escape to Plastic Beach innihélt tónlistarmyndbönd við lögin „Stylo“ og „On Melancholy Hill“ þar sem Murdoc greinir frá tilurð nýjustu plötunnar sem til varð á felustaðnum hans á Plastic Beach. Ýtt er undir messíasarkomplex hans þar sem lögin voru bara of góð til þess að fá aðeins að dvelja á plasteyjunni með honum. Þannig að Murdoc smíðaði nýjan gítarleikara úr lífsýnum úr Noodle, einskonar sæborg, sem hefur þann eiginleika að skjóta byssukúlum úr munninum og að vera í leiðinni lífvörður Murdocs. Síðan notaði hann eiturgas til þess að ræna 2D, því engin hljómsveit lifir áfram án söngvara síns.

Útvíkka konseptplötuna

Tónlistarmyndböndin voru líkt og áður notuð til þess að sá fræjum í huga aðdáenda um framvinduna í söguheiminum. Okkur eru ekki gefin nein svör. Aðeins spurningar. Ekkert sem við sjáum er sett fram af tilviljun. Allt hefur merkingu, mismikla auðvitað. Til að mynda er 2D með trúðagrímu í myndbandinu við lagið Stylo og var það til þess að fela þá staðreynd að hann væri skelþunnur eftir drykkjuátök fyrri nætur. Við eigum samt sjálf að fylla inn í eyðurnar og búa til okkar eigin sögu út frá þeim myndum sem okkur hafa verið gefnar, en hægt er að finna frekari vísbendingar í tölvuleiknum. Samvinna allra þessara þátta í gerð og framkvæmd plötunnar Plastic Beach gerir það að verkum, að Gorillaz tekst að útvíkka skilgreininguna á konseptplötu.

Platan sjálf er ferðalag, til eyjarinnar sem samanstendur af plastrusli sem jarðarbúar hafa hent í sjóinn. Snoop Dogg ásamt Líbönsku sinfoníuhljómsveitinni bjóða okkur velkomin og síðan tekur við stórfenglegt ferðalag í gegnum hip hop, trip hop, sálar-, raf-, popp og rokk tónlist ásamt því að veita okkur innsýn inn í myrka framtíð marglytta og skyndibita sem verður það eina sem eftir verður þegar búið er að drepa allt annað. Að lokum er okkur vaggað til svefns með arabísktskotinni sinfóníutónlist og þýðum söng Bobby Womack. Samstarfsmenn Albarn fylla upp í konsept þeirra Hewlett og virðast tengja mjög vel við hugmyndina, hvort sem það eru Mos Def, Mick Jones, Lou Reed eða Hypnotic Brass Ensemble.

Langt hlé

Það er ekki skrýtið að hljómsveitin hafi tekið sér frí eftir þessa plötu ef undanskilin er fjórða plata sveitarinnar, The Fall, sem kemur út í lok ársins 2010 og er tekin upp og samin öll á Bandaríkjalegg Plastic Beach tónleikaferðalagsins. Platan er ekki eins og hefðbundin Gorillaz breiðskífa, fáir listamenn koma að henni aðrir en Albarn. Hún hljómar háflpartinn eins og B-hliða plata Plastic Beach og segir enga stærri sögu og er þeirra sísta hljómplata.

Hljómsveitin fór síðan aftur að láta á sér kræla á seinni hluta síðasta árs, þar sem brot úr myndum og sögubútar birtust á Instagram reikningi Gorillaz. Okkur er greint frá því hvað drifið hefur á daga persóna hljómsveitarinnar. Russel skolaðist upp á strendur Norður Kóru og var meðal annars notaður sem sýningargripur þangað til hann skrapp saman vegna matarskorts í landinu. Noodle eltist við hamskiptadjöful í mörg ár þangað til hún afhausaði hann í Fuji héraði í Japan.

Hvalahræðsla 2D minnkaði ekki þegar hvalurinn Massive Dick (engin tengsl Moby þó) gleypti hann og þurfti hann að dúsa í maga hans þangað til hvalurinn dó úr rusláti. Murdoc, sem flúði árás byssuóðra sjóræningja, flúði á riðguðum kafbát með margra ára birgðir af Psycho Jerry’s rommi sem kláraðist þó á mun skemri tíma. En þegar hann kom upp á yfirborðið var hann handsamaður og haldið í myrkum hirslum plötufyrirtækisins EMI.

 

The end! #TheBookofMurdoc

A post shared by Gorillaz (@gorillaz) on

Að læðast inn á tónlistarsviðið í gegnum Instagram reikning sinn er mjög Gorillaz-legt ef svo má að orði komast. Ef kafað er enn dýpra er hægt að skoða týpískar instagram myndir stúlku á þrítugsaldri á reikningi Noodle, þar eru myndir af til dæmis mat, dýrum og skóm. Auðvitað er augljósa greiningin á þessu öllu saman ádeilan á glansmyndina sem við setjum fram á samfélagsmiðlum. En auk þess hefur netvera Gorillaz verið eitt af einkennum sveitarinnar og að herja á samfélgasmiðla er bara annað tól í stóru verkfærasafni. Undirbygging af einhverju stærra, nýrri plötu sem búin er að vera væntanleg í meira en ár. Loksins fengu aðdáendur að heyra hvaða hræringar áttu sér stað í kviku Gorillaz. Hallelujah Money sem birtist 19. janúar síðastliðinn og vísar texti lagsins til umdeilanlegra skoðana núverandi Bandaríkjaforseta og er unnið í samstarfi við tónlistarmanninn og ljóðskáldið Benjamin Clementine.

Gorillaz hefur verið aðhaldsband og gagnrýnið, væntanleg plata þeirra verður svar við sprengjuregninu í Sýrlandi og vaxandi uppgangi poppúlisma í heiminum og síðast en ekki síst að beina spjótum sínum að nýjum Bandaríkjaforseta. Miðað við þær vísbendingar sem fyrsta smáskífan bar með sér. En hvað sem verður svífum við einungis á skýi óvissunar og með því skulum við ljúka þessari snörpu yfriferð á einni af áhugaverðari hljómsveitum samtímans.

Eyþór Gylfason fjallaði um teiknimyndasveitina Gorillaz í tveimur pistlum í Lestinni sem hægt er að hlýða á efst í færslunni.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Báru Damon Albarn af sviðinu

Erlent

Damon Albarn semur óperu