Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gönguleið opnuð um Holuhraun

02.07.2015 - 19:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs hafa lokið við að merkja gönguleið upp á norðurbrún Holuhrauns skammt frá veginum um Dyngjusand, en leiðin var opnuð í dag. Þarna er víða mjög torfært yfir úfið hraunið og varasamt að fara um. Þetta er ekki göngustígur.

„Nei þetta er gönguleið og hún mun fá erfiðleikagráðu sem hæfir. Hún mun annað hvort teljast hættuleg óvönum, eða að minnsta kosti krefjandi,“ segir Hjörleifur Finnsson þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði.

Það er í ótrúleg tilfinning að ganga um hraunið sem var rauðglóandi fyrir aðeins um hálfu ári síðan. Hitinn streymir upp úr hrauninu. Þetta er frekar stutt gönguleið en á henni má sjá ótrúlega fjölbreytilegar kynjamyndir í hrauninu. Vel sést yfir hraunið og í fjarska sést sjálfur gígurinn.

Þess verður víst langt að bíða að hægt verði að fara alla leið þangað fótgangandi.

„Stærðin á hrauninu er slík og víðáttan hérna á þessu svæði og kraftar náttúrunnar eru bara svo svo stórir og mikilfenglegir. Hraunið er enn eitt dæmi um það, nýjasta dæmið,“ segir Hjörleifur.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður